Þrjár nætur þurfi að líða

Jón Þór Ólafsson ásamt fleiri þingmönnum.
Jón Þór Ólafsson ásamt fleiri þingmönnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn úr röðum allra stjórnarandstöðuflokkanna hafa lagt fram frumvarp á Alþingi til breytinga á lögum um fundarsköp þingsins og lögum um rannsóknarnefndir þess efnis að þrjár nætur hið minnsta verði að líða frá því að lokaskýrsla rannsóknarnefndar á vegum Alþingis er birt þar til hún er tekin til umræðu í þinginu. Minnt er á í greinargerð með frumvarpinu að Alþingi og einstökum þingmönnum sé ætlað að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu samkvæmt þingsköpum.

„Til að sinna þessu stjórnarskrárbundna eftirlitshlutverki hafa þingmenn og þingnefndir m.a. heimild í þingsköpum til að kalla eftir skýrslum og fá umræðu um þær í þinginu. Til að eftirlitshlutverkinu sé sinnt með sóma þurfa þingmenn að geta kynnt sér efni skýrslu vel fyrir umræðu í þingsal. Það eru því óvönduð þingsköp sem heimila þingforseta að setja langar og ítarlegar rannsóknarskýrslur á dagskrá degi eftir birtingu. Flutningsmenn vilja með þessu frumvarpi laga þá brotalöm og bæta þannig störf Alþingis,“ segir ennfremur í greinargerð.

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata en meðflutningsmenn Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson þingmenn Pírata, Edward H. Huijbens varaþingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Guðbjartur Hannesson, Valgerður Bjarnadóttir og Össur Skarphéðinsson þingmenn Samfylkingarinnar og Guðmundur Steingrímsson og Brynhildur Pétursdóttir þingmenn Bjartrar framtíðar.

Frumvarpið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert