Skoði starfsumhverfi sparisjóðanna

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Hver sem afstaða þingmanna er til framtíðar sparisjóðanna er ljóst að ekki verður undan því vikist að eiga umræðu um það hvernig eigi að haga starfsumhverfi sparisjóðanna til framtíðar og vænti ég þess að Alþingi og viðeigandi nefnd muni taka þetta mál til nánari umfjöllunar.“

Þetta sagði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra á Alþingi í dag við upphaf umræðu um rannsóknarskýrslu um fall sparisjóðanna en hann fór yfir efni skýrslunnar sem staðgengill Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Gerði hann meðal annars að umtalsefni sínu þær niðurstöður skýrslunnar að framtíð sparisjóðakerfisins sé háð því að rekstur sparisjóða njóti stuðnings ríkisins með beinum eða óbeinum hætti. Þeir verði að starfa eftir öðrum reglum og undir minni eftirlitskröfum en önnur fjármálafyrirtæki.

Ráðherrann sagði að í þessu samhengi væri mikilvægt að gera sér grein fyrir því að sparisjóðir væru fjármálafyrirtæki og lytu regluverki sem slíkir. „Ef þeir ætla að fá að taka við innlánum frá almenningi verða þeir að lúta sama regluverki og aðrar innlánsstofnanir. Og eins er mikilvægt að hafa hugfast að samkeppnisyfirvöld kynnu að fetta fingur út í skekkta samkeppnisstöðu á samkeppnismarkaði.“ Þá yrði að hafa í huga reglur um ríkisstyrki sem Ísland væri bundið af.

Illugi benti ennfremur á að ráða mætti af skýrslunni að skort hafi á samstöðu og sameiginlega framtíðarsýn hjá sparisjóðunum. Virtist mega draga þá ályktun að stærstu sparisjóðirnir hafi frekar lagt áherslu á að stækka eigin efnahagsreikning en að styrkja innviðina eða auka rekstrarhæfni til frambúðar og lækka rekstrarkostnað til að mynda með sameiningu við aðra sparisjóði. Skýrslan leiddi í ljós margþáttaða veikleika í stjórnun, vinnubrögðum og skipulagi þeirra.

„Ljóst er að innviðir sparisjóðanna voru ekki undir það búnir að takast á við aukin og flóknari verkefni,“ sagði hann ennfremur. Meginþungi stærstu sparisjóðanna hafði færst frá því að snúast um hefðbundna innlánsstarfsemi til framsækinnar fjárfestingabankastarfsemi. „Það þarf sterk bein til að þola góða daga og eftir sjö ár hraðs vaxtar voru stærstu sparisjóðirnir engan veginn færir um að takast á við þrengingar á fjármálamörkuðum og lækkun á eignaverði sem hófst fyrir alvöru síðustu mánuði ársins 2007 og endaði með falli viðskiptabankanna í október 2008.“

Benti hann á að niðurstaða rannsóknarnefndarinnar væri sú að fall og rekstrarerfiðleika sparisjóðanna megi rekja til þess hvernig eignasafn þeirra var samsett og hvernig þeir hafi verið fjármagnaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert