Sparisjóðshugsjónin deyi ekki

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vona að meðhöndlun nefndanna sem um þessa skýrslu munu fjalla verði góð og að það komi góð nefndarálit. Ég vona að við munum draga lærdóm af þessu. Ég vona að sérstakur saksóknari fari af röggsemi í þau mál sem að honum er beint. Og svo vona ég að þetta allt saman verði ekki til þess að sparisjóðshugsjónin falli niður dauð.“

Þetta sagði Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag í umræðum um rannsóknarskýrslu um sparisjóðina. „Því hún er falleg, um það að fólk leggi saman í púkk og nýti samvinnuna og samhæfingarmáttinn til þess að koma á fegurra mannlífi og góðu samfélagi.“ Guðmundur sagðist annars ekki hafa náð að kynna sér skýrsluna ítarlega. En almennt sagði hann skýrsluna lýsa áhættusækni, meðvirkninni í íslensku samfélagi og óhófi. Sömuleiðis óraunsæi og virðingarleysi fyrir hefðbundnum gildum í fjármálalífi sem og fyrir sparisjóðshugsjóninni.

Þá sagðist Guðmundur hafa áhyggjur af því að ekki yrði dreginn lærdómur af skýrslunni frekar en öðrum slíkum skýrslum. Þarna hefði verið sótt í sameiginlegan sjóð sem hafi verið hugsaður til þess að sinna samfélagslegum verkefnum. Gagnrýndi hann í því sambandi skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar sem gerðu bæði ráð fyrir miklum útgreiðslum úr ríkissjóði til þess í raun að fjármagna einkaneyslu. Þær gerðu einnig ráð fyrir að farið væri í lífeyrissjóði landsmanna sem einnig væru sameiginlegir sjóðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert