„Þarna hefur græðgin ráðið för“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tel að það sé eft­ir­spurn eft­ir breyttri banka­starf­semi,“ sagði Katrín Jak­obs­dótt­ir, formaður Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar - græns fram­boðs, á Alþingi í dag í umræðum um skýrslu rann­sókn­ar­nefnd­ar um fall spari­sjóðanna. Vísaði hún þar til at­hug­ana sem gerðar hefðu verið á viðhorf­um al­menn­ings í land­inu til fjár­mála- og banka­starf­semi. 

Katrín lagði áherslu á mik­il­vægi þess að rík­is­valdið setti lög sem gerðu siðlegri banka­starf­semi auðveld­ari og hvetti til henn­ar þó hún væri sam­mála því sjón­ar­miði að eðli­legt væri að ein­stak­ling­ar ættu frum­kvæðið að slíkri starf­semi. Læra mætti margt af skýrsl­unni um spari­sjóðina hvernig ætti að setja slík lög og regl­ur. „Auðvitað fyll­ist maður svart­sýni þegar manni sýn­ist að í raun og veru hafi græðgin ráðið allt of miklu, græðgin ráðið allt of miklu. Sum­ir myndu ger­ast böl­sýn­is­menn og segja: Það er bara eðli­legt og þannig mun það alltaf enda. Það mun alltaf enda þannig að græðgin mun ráða of miklu í þessu,“ sagði hún.

Hins veg­ar mætti skoða málið frá fleiri hliðum. „Það er ekk­ert óeðli­legt við það að hafa ákveðinn arð af banka­starf­semi. En þegar arður­inn er orðinn til þess að öll upp­runa­leg mark­mið banka­starf­sem­inn­ar eru löngu horf­in og gleymd. Þá fer maður að spyrja sig.“ Þegar arður­inn væri hins veg­ar óhóf­lega á kostnað annarra mætti fara að tala um græðgi. „Og það get­um við lært af þess­ari skýrslu að þarna hef­ur sú krafa orðið óhóf­leg á kostnað annarra þátta. Þarna hef­ur græðgin ráðið för.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka