„Þarna hefur græðgin ráðið för“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tel að það sé eftirspurn eftir breyttri bankastarfsemi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag í umræðum um skýrslu rannsóknarnefndar um fall sparisjóðanna. Vísaði hún þar til athugana sem gerðar hefðu verið á viðhorfum almennings í landinu til fjármála- og bankastarfsemi. 

Katrín lagði áherslu á mikilvægi þess að ríkisvaldið setti lög sem gerðu siðlegri bankastarfsemi auðveldari og hvetti til hennar þó hún væri sammála því sjónarmiði að eðlilegt væri að einstaklingar ættu frumkvæðið að slíkri starfsemi. Læra mætti margt af skýrslunni um sparisjóðina hvernig ætti að setja slík lög og reglur. „Auðvitað fyllist maður svartsýni þegar manni sýnist að í raun og veru hafi græðgin ráðið allt of miklu, græðgin ráðið allt of miklu. Sumir myndu gerast bölsýnismenn og segja: Það er bara eðlilegt og þannig mun það alltaf enda. Það mun alltaf enda þannig að græðgin mun ráða of miklu í þessu,“ sagði hún.

Hins vegar mætti skoða málið frá fleiri hliðum. „Það er ekkert óeðlilegt við það að hafa ákveðinn arð af bankastarfsemi. En þegar arðurinn er orðinn til þess að öll upprunaleg markmið bankastarfseminnar eru löngu horfin og gleymd. Þá fer maður að spyrja sig.“ Þegar arðurinn væri hins vegar óhóflega á kostnað annarra mætti fara að tala um græðgi. „Og það getum við lært af þessari skýrslu að þarna hefur sú krafa orðið óhófleg á kostnað annarra þátta. Þarna hefur græðgin ráðið för.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert