Annaðhvort að lækka eða hætta við

Fyrirhugað háhýsi neðst við Frakkastíg mun spilla sjónási niður götuna …
Fyrirhugað háhýsi neðst við Frakkastíg mun spilla sjónási niður götuna út á sjó. mbl.is/Ómar

Borgaryfirvöld segja að svo virðist sem að aðeins tveir kostir séu í stöðunni varðandi breytingu á framkvæmdum tveggja háhýsa við Skúlagötu 12-14 í Reykjavík. Kostirnir eru „að hætta við framkvæmd bygginganna eða að lækka þær niður í 4-5 hæðir sem þó myndu eftir sem áður standa út í götu og sjónlínu niður Frakkastíg.“

Þetta kemur fram í minnisblaði umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur sem er dagsett 8. apríl sl. 

Þar var fjallað um bókun Besta flokksins; Páls Hjaltasonar, Elsu Hrafnhildur Yeoman, Karls Sigurðssonar og fulltrúa Samfylkingarinnar Hjálmars Sveinssonar og Kristínar Soffíu Jónsdóttur og fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs Sóleyjar Tómasdóttur frá 12. mars sl. þar sem skipulagsfulltrúa var falið að hefja viðræður við verktaka og höfða til samvisku þeirra vegna framkominnar gagnrýni og breyttrar stefnu borgaryfirvalda frá þeim tíma sem skipulagið var samþykkt. 

Vilja draga úr sjónrænum áhrifum á nærliggjandi umhverfi

Í minnisblaðinu segir, að boðað hafi verið til fundar með verktökum 24. mars sl. Rætt var með hvaða hætti mætti koma til móts við þau skipulagslegu sjónarmið, er draga vilja úr sjónrænum áhrifum 3. áfanga Skuggahverfis á nærliggjandi umhverfi, einkum þó sjónlínur frá Skólavörðuholti og niður Frakkastíg.

Þá segir að reynt hafi verið að leggja mat á afleiðingar þess að hliðra íbúðarhúsunum að Lindargötu 39 og Vatnsstíg 22 til vesturs um þrjá metra út frá sjónarhóli framkvæmdarinnar svo og skipulagslega. Bent er á að, framkvæmdir við Lindargötu 39 séu komnar vel á veg, en búið sé að steypa upp fjórar hæðir hússins. Jarðvinnuframkvæmdir standi yfir á Vatnsstíg 22. 

„Nokkuð augljóst virðist að tilfærsla Lindargötu 39 til vesturs um 3 metra er háð verulegum vandkvæðum. Vegna staðsetningar lyftu- og stigakjarna er ekki hægt, með einfaldri aðgerð, að flytja til byggingarmagn á lóðinni, heldur þyrfti annaðhvort að ráðast í umfangsmiklar breytingar á skipulagi og burðarvirki hússins eða fjarlægja þann hluta hússins sem þegar er búið að reisa og hefja framkvæmdir á nýjan leik eftir breyttri hönnun.

Tilfærsla Vatnsstígs 22 til vesturs um 3 metra er að því leytinu til einfaldari aðgerð en sú sem nefnd er hér að framanverðu þ.e. að steypuvinna við húsið er ekki hafin. Endurhanna þyrfti lágbyggingu við vesturenda þess svo og tengingar við bílakjallara og fermetrum íbúða myndi fækka ásamt rými í kjallara,“ segir í minnisblaðinu.

Skipulagshlið málsins vegur þyngst

Þá segir, að þó að tæknilega sé hægt að hliðra báðum húsunum til vesturs, með mismiklum tikostnaði þá vegi skipulagshlið málsins þó þyngst. Tækist að ná samkomulagi við eigendur byggingarréttarins um bætur sem myndu hljótast af slíkri hliðrun, standi eftir að gera þyrfti breytingu á deiliskipulagi sem tæki mið af umræddri færslu bygginganna. Viðbúið sé að eigendur nærliggjandi fasteigna myndu gera athugasemdir við að Lindargötu 39 og Vatnsstíg 22 yrði hliðrað til vesturs með auknu návígi við stóra byggingarmassa og tilheyrandi skerðingu á sjónlínum. 

Þá kemur fram, að ekki hafi verið lagt mat á þann kostnað er hlotist gæti af endurhönnun mannvirkja; niðurrifi þeirra húshluta sem þegar hafa verið reistir; töfum á framkvæmdum og fækkun fermetra.

„Ofangreind niðurstaða sem er fyrirsjáanleg hvað varðar flutning bygginganna, vegna deiliskipulags, leiðir til annarra hugsanlegra lausna án flutnings þeirra. Hvað það varðar virðist aðeins um tvo kosti að ræða, þ.e.a.s. að hætta við framkvæmd bygginganna eða að lækka þær niður í 4-5 hæðir sem þó myndu eftir sem áður standa út í götu og sjónlínu niður Frakkastíg. Til þess að meta þann kost þarf að ákvarða fyrirsjáanlegan fjárhagsskaða verktakans og athuga þá möguleika sem þarf til að takast á við það,“ segir í minnisblaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert