Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands vöruðu ítrekað við alvarlegri stöðu Sparisjóðsins í Keflavík frá og með ársbyrjun 2009 og þar til ríkið tók hann yfir í apríl 2010.
Við yfirtökuna varð til nýr sjóður, SpKef. Fram kom í greiningu þessara aðila að sparisjóðurinn uppfyllti ekki reglur um lögbundið eigið fé.
Þrátt fyrir það var gerð tilraun til að endurreisa hann. Það bar ekki árangur. SpKef átti sér ekki lífsvon og rann því inn í Landsbankann 2011. Um þetta er fjallað í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um sparisjóðina en þar er rifjað upp að Mats Josefsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, taldi mistök við endurskipulagningu sjóðsins geta leitt til „sóunar á almannafé“.