„Hvorki ég né fyrirtæki á mínum vegum hafa fengið afskriftir. Ég hef verið hjá sama viðskiptabanka í tæp þrjátíu ár. Ekkert fyrirtækja minna og engin kennitala hjá mér er gjaldþrota. Ég er hvorki kennitöluflakkari né afskriftarkóngur,“ segir Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class í aðsendri grein í Kópavogsfréttum í dag.
Greinin er rituð í tilefni af umræðum sem sprottið hafa upp í kjölfar útboðs á líkamsræktarstöðum í sundlaugum Kópavogsbæjar. Í grein sem Hjálmar Hjálmarsson, bæjarfulltrúi ritaði í Kópavogsfréttir í gær í kjölfar frétta um að World Class hafi boðið best í rekstur líkamsræktarstöðvanna, Segir Hjálmar að verði tilboði World Class tekið muni það leiða til umtalsverðra verðhækkana strax á fyrsta ári. Þá bendir Hjálmar á viðskiptasögu Björns og setur hana í samhengi við viðskiptasögu annarra viðskiptamanna sem hann segir hafa fengið afskriftir af skuldum sínum. Hjálmar tekur þó fram að erfitt sé að afla óyggjandi upplýsinga um afskriftir eigenda World Class.
Björn segist vera með um 3000 viðskiptavini í stöðvum sínum í Kópavogi. „Spyrja má hins vegar hvers eiga þá mínir viðskiptavinir í Kópavogi að gjalda þegar þeir eru að greiða niður verðið til viðskiptavina Gym heilsu.“
„Ég veit ekki nákvæmlega hvaða verð Gym heilsa bauð en ég veit fyrir víst að þeir muni hækka kortaverð töluvert ef þeir halda rekstrinum. Mig grunar að verðbilið á milli okkar muni nema um þúsund krónum á mánuði, og því mun verðmunurinn ekki vera stórkostlegur,“ segir Björn í greininni.