Hafnarfjarðarbær er ekki beinn aðili að málefnum öldrunarmiðstöðvarinnar Hafnar í Hafnarfirði að öðru leyti en því að bærinn á fjórar íbúðir í húsunum auk kjallara. Þetta segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, í samtali við mbl.is. Þá þurfi að hennar sögn að fara fram viðræður um hvort matsalur húsanna sé í eigu bæjarins eða hluti af sameign þeirra.
Eins og greint er frá í Morgunblaðinu í dag eru íbúar hússins harmi slegnir eftir að á daginn kom að þeir þurfi að reiða fram á bilinu eina og hálfa til fjórar milljónir króna á næstu vikum til að geta búið áfram í húsunum vegna rekstrarerfiðleika Byggingarsjóðs Hafnar sem rekið hefur húsin. Það felur einnig í sér að íbúarnir kaupi sameign húsanna. Íbúar húsanna höfðu áður keypt sér íbúðarrétt í þeim en það fyrirkomulag gengur ekki lengur að mati rekstraraðila þeirra.
„Við erum með þjónustu í húsunum og það er alveg á hreinu að bærinn hefur ekki neinar fyrirætlanir um að breyta henni,“ segir Guðrún. Nægar séu áhyggjur íbúanna samt. Þjónustan felist í rekstri á matsal auk þess sem staðið sé fyrir félagsstarfi. „Við höfum ekki hugsað okkur að breyta neinu hvað það varðar.“
Hins vegar þurfi að fara fram viðræður á milli Hafnarfjarðarbæjar og Hafnar um eignarhaldið á matsalnum. „Bærinn á þarna kjallarann og fjórar íbúðir og þá er spurning með þennan matsal,“ segir hún. Eðlilegt væri að hennar mati að taka hann út úr sameigninni.