Bannað að rukka ferðamenn við Geysi

Frá héraðsdómi Suðurlands í morgun.
Frá héraðsdómi Suðurlands í morgun. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Héraðsdómur Suðurlands komst að þeirri niðurstöðu í morgun að sýslumanninum á Selfossi beri að framfylgja lögbannskröfu fjármálaráðuneytisins á gjaldtöku landeigenda við Geysissvæðið.

Gjaldtaka hófst á Geysissvæðinu laugardaginn 15. mars, en tveimur dögum áður hafnaði sýslumaðurinn á Selfossi lögbannskröfu ríkisins vegna innheimtunnar.

Ríkið skaut þá málinu til Héraðsdóms Suðurlands.

Rök ríkisins fyrir lögbanni eru þau að gjaldtakan sé ekki heimil án samþykkis allra landeigenda. Eignarhlutur á Geysissvæðinu skiptist í tvennt, annars vegar 23 þúsund fermetra séreignarland ríkisins í hjarta hverasvæðisins og hinsvegar landið umhverfis hverina sem er í sameign ríkisins og félags landeigenda.

Ívar Pálsson, lögmaður ríkisins, sagðist í samtali við mbl.is vera mjög ánægður með þessa niðurstöðu. Krafan verði nú send til sýslumanns sem tekur hana til afgreiðslu og framfylgir henni. Óskað verði eftir því að bannið taki gildi sem fyrst.

Dómurinn í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka