Lögðu fram tilboð sem var hafnað

Herjólfur siglir frá Vestmannaeyjum í Landeyjarhöfn
Herjólfur siglir frá Vestmannaeyjum í Landeyjarhöfn mbl.is/Rax

Eimskip lagði í morgun fram tilboð þar sem komið var til móts við kröfur áhafnar á Herjólfi í mörgum veigamiklum þáttum. Tilboðinu var umsvifalaust hafnað, að sögn Ólafs William Hand upplýsingafulltrúa Eimskip.

Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, sagði í samtali við mbl.is nú síðdegis að á fundinum í morgun hafi verið „rúllað yfir stöðuna“ án þess að neitt nýtt kæmi fram og deilan sé í raun á byrjunarreit.

Styttri dagvinna og hærri álagsprósenta

Þetta segir Ólafur rangt. „Það rétt er að það var lagt fram formlegt tilboð á fundinum, sem Jónas hafnaði með því sama,“ segir Ólafur. Sjómannafélagið sér um samningagerðina og situr Jónas einn við samningaborðið fyrir hönd áhafnar Herjólfs. Eimskip hefur gagnrýnt þetta.

„Við höfum ítrekað kallað eftir því að fulltrúar áhafnar séu við borðið, þannig að þeir fái upplýsingar um tilboðin strax á sama tíma og hann. Þeir hafa ekki orðið við því, en við teljum að það myndi auðvelda allar samningaviðræður.“

Tilboðið sem Eimskip lagði fram í dag sneri m.a. að dagvinnu undirmanna Herjólfs, sem yrði samkvæmt því stytt frá því að vera milli 8-17 niður í að vera frá 8-16. Einnig hafi í tilboðinu verið komið til móts við kröfur um álagsprósentu, og sitthvað fleira rætt að sögn Ólafs.

Boltinn hjá Sjómannafélaginu

„Við tökum þessum fresti sem ríkið gaf okkur með lagasetningu mjög alvarlega og lítum á hann sem frest til þess að vinna að lausn málsins, en ekki til að tefja hana fram í september.“

Ólafur segir það ólíðandi fyrir Vestmannaeyinga og aðra sem þurfi að nota þjónustu ferjunnar að lifa í ótta með annað verkfall í september. Því sé óásættanlegt að ekkert gerist í málinu fyrr en þá, nýta verði tímann vel núna.

„Menn verða að koma til samningaborðsins með samningsvilja. Við vinnum að því hörðum höndum að leggja fram tilboð. Nú lítum við svo á að boltinn sé hjá Sjómannafélaginu að koma með gagntilboð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka