Lögðu fram tilboð sem var hafnað

Herjólfur siglir frá Vestmannaeyjum í Landeyjarhöfn
Herjólfur siglir frá Vestmannaeyjum í Landeyjarhöfn mbl.is/Rax

Eim­skip lagði í morg­un fram til­boð þar sem komið var til móts við kröf­ur áhafn­ar á Herjólfi í mörg­um veiga­mikl­um þátt­um. Til­boðinu var um­svifa­laust hafnað, að sögn Ólafs William Hand upp­lýs­inga­full­trúa Eim­skip.

Jón­as Garðars­son, formaður Sjó­manna­fé­lags Íslands, sagði í sam­tali við mbl.is nú síðdeg­is að á fund­in­um í morg­un hafi verið „rúllað yfir stöðuna“ án þess að neitt nýtt kæmi fram og deil­an sé í raun á byrj­un­ar­reit.

Styttri dag­vinna og hærri álags­pró­senta

Þetta seg­ir Ólaf­ur rangt. „Það rétt er að það var lagt fram form­legt til­boð á fund­in­um, sem Jón­as hafnaði með því sama,“ seg­ir Ólaf­ur. Sjó­manna­fé­lagið sér um samn­inga­gerðina og sit­ur Jón­as einn við samn­inga­borðið fyr­ir hönd áhafn­ar Herjólfs. Eim­skip hef­ur gagn­rýnt þetta.

„Við höf­um ít­rekað kallað eft­ir því að full­trú­ar áhafn­ar séu við borðið, þannig að þeir fái upp­lýs­ing­ar um til­boðin strax á sama tíma og hann. Þeir hafa ekki orðið við því, en við telj­um að það myndi auðvelda all­ar samn­ingaviðræður.“

Til­boðið sem Eim­skip lagði fram í dag sneri m.a. að dag­vinnu und­ir­manna Herjólfs, sem yrði sam­kvæmt því stytt frá því að vera milli 8-17 niður í að vera frá 8-16. Einnig hafi í til­boðinu verið komið til móts við kröf­ur um álags­pró­sentu, og sitt­hvað fleira rætt að sögn Ólafs.

Bolt­inn hjá Sjó­manna­fé­lag­inu

„Við tök­um þess­um fresti sem ríkið gaf okk­ur með laga­setn­ingu mjög al­var­lega og lít­um á hann sem frest til þess að vinna að lausn máls­ins, en ekki til að tefja hana fram í sept­em­ber.“

Ólaf­ur seg­ir það ólíðandi fyr­ir Vest­manna­ey­inga og aðra sem þurfi að nota þjón­ustu ferj­unn­ar að lifa í ótta með annað verk­fall í sept­em­ber. Því sé óá­sætt­an­legt að ekk­ert ger­ist í mál­inu fyrr en þá, nýta verði tím­ann vel núna.

„Menn verða að koma til samn­inga­borðsins með samn­ings­vilja. Við vinn­um að því hörðum hönd­um að leggja fram til­boð. Nú lít­um við svo á að bolt­inn sé hjá Sjó­manna­fé­lag­inu að koma með gagn­til­boð.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka