Fara yfir rekstur öldrunarþjónustu

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum óskað eftir fundi með Ríkisendurskoðun til þess að fara yfir stöðu sjálfseignastofnana sem eru að veita þjónustu í þágu aldraðra með einhverjum hætti,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, í samtali við mbl.is spurð hvort stjórnvöld ætli að beita sér með einhverjum hætti vegna þeirrar stöðu sem upp er komin hjá öldrunarmiðstöðinni Höfn í Hafnarfirði.

Eins og mbl.is og Morgunblaðið hafa fjallað um í vikunni eru íbúar Hafnar harmi slegnir eftir að á daginn kom að þeir þurfi að reiða fram á bilinu eina og hálfa til fjórar milljónir króna á næstu vikum til að geta búið áfram í húsunum vegna rekstrarerfiðleika Byggingarsjóðs Hafnar sem rekið hefur þau. Íbúar húsanna höfðu áður keypt sér íbúðarrétt í húsunum en það fyrirkomulag gengur ekki lengur að mati sjóðsins.

Eygló bendir á að málefni slíkra sjálfseignastofnana heyri undir þrjú ráðuneyti, velferðarráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og innanríkisráðuneytið. Velferðarráðuneytið sjái um að veita rekstrar- og framkvæmdaleyfi fyrir þjónustustofnanir fyrir aldraða en lög um sjálfseignastofnanir heyra hins vegar undir innanríkisráðuneytið. Samkvæmt lögunum eiga slíkar stofnanir að skila ársreikningum til Ríkisendurskoðunar árlega.

Stjórnarmenn geri sér grein fyrir ábyrgð sinni

„Við teljum einfaldlega mjög brýnt að fara yfir þessi mál og síðan í framhaldinu að farið verði yfir lagaumhverfið og reglugerðaumhverfið. En það er að sjálfsögðu ekki eitthvað sem ég tek ein ákvörðun um enda koma þrír ráðherrar að þessu,“ segir hún og bendir á að nokkur hundruð slíkar stofnanir starfi hér á landi. Vísar hún til þess að nokkur slík mál hafi komið upp undanfarin misseri. Þar á meðal Höfn og Eir þar á undan.

„Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að stjórnarmenn í stofnunum sem þessum geri sér grein fyrir sinni ábyrgð og sú ábyrgð snýr náttúrulega að því að tryggja að stofnanirnar séu ekki reknar með tapi. Það er enginn að fara fram á að þær séu reknar með hagnaði. Ef svo er þá er mjög mikilvægt að íbúarnir séu upplýstir um fjárhagslegu stöðuna svo þeir geti þá brugðist við,“ segir ráðherrann.

Þá telji hún einnig mjög mikilvægt að þegar fólk tekur ákvörðun um að kaupa sig inn í ákveðið búsetuform geri það sér grein fyrir réttarstöðu sinni varðandi þá ákvörðun. Miðað við fréttir bæði af Eir og Höfn virðist sem fólk hafi ekki nægjanlega gert sér grein fyrir því hver réttarstaða þess væri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert