Hluti sjúkraliða undirbýr verkfall

Sjúkraliðar sem starfa á Hrafnistu munu á morgun og næstu …
Sjúkraliðar sem starfa á Hrafnistu munu á morgun og næstu daga greiða atkvæði um hvort farið verður í verkfall. mbl.is

Rúmlega 300 félagsmenn í Sjúkraliðafélagi Íslands sem starfa hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu munu á morgun og næstu daga greiða atkvæði um hvort þeir fara í verkfall í maí. Þá er unnið að kröfugerð sjúkraliða sem starfa hjá ríkinu.

Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður félagsins, segir stöðuna þá að byrjað sé að afla heimilda til verkfalls fyrir sjúkraliða sem starfa hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu. Þeir starfa á hjúkrunarheimilum og á sjálfseignarstofnanum; Hrafnistu, Grund, Skógarbæ, og fleiri stofnunum. Opnað verður fyrir kosningu um hvort boða eigi til verkfalls á morgun.

Launataflan orðin skekkt

„Hvað varðar ríkið höfum við ekki hitt samninganefnd ríkisins í þessari viku. Við höfum því ekki lokið samningum við ríkið eins og mörg önnur stéttarfélög. Þær viðræður hafa aðallega strandað á vinnu við lagfæringu á launatöflu. Hún felst í því að launataflan er orðin skekkt, vegna þess að tvisvar hafa verið settar inn krónutöluhækkanir.

Launabil milli flokka og þrepa hefur því riðlast, er ekki það sama og var. Þetta viljum við fá lagfært. Við erum komin með drög að tillögu að launatöflu sem við myndum gjarnan vilja kynna fyrir samninganefnd ríkisins. Það verður væntanlega strax eftir páska. Öll vinna við samningana leggst af um páskana,“ segir Kristín og tekur fram að sjúkraliðar sem starfi hjá ríkinu séu ekki farnir að undirbúa verkfall. Málið sé enn á vettvangi samninganefnda og hugmyndir um verkfall komi ekki til umræðu fyrr en málið fari á borð ríkissáttasemjara.

Misjafnt hvenær samningar verða lausir

Rúmlega 300 sjúkraliðar eru á kjörskrá hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu. Til samanburðar eru um 2.000 félagsmenn í Sjúkraliðafélagi Íslands og starfa þar af um 700 til 800 manns hjá ríkinu. Þá starfa um 300-400 félagsmenn hjá sveitarfélögunum, en samningar hjá þeim verða ekki lausir fyrr en í júní.

Að sögn Kristínar er til skoðunar að fara í stutt þriggja daga verkfall 12. maí og síðan í allsherjarverkfall.

„Við erum að vinna að þessu í samstarfi við Starfsmannafélag ríkisstofnana, SFR. Samanlagt starfa um 500 manns í þessum stéttarfélögum hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert