Skrifuðu undir samning um 2,8% hækkun

Háskóli Íslands, aðalbygging.
Háskóli Íslands, aðalbygging. Ómar Óskarsson

Háskólakennarar fá 2,8% launahækkun í miðlægum kjarasamningi, ásamt því sem Háskóli Íslands hyggst koma til móts við kröfur kennara um ýmis atriði sem varða starfsumhverfi þeirra. Jörundur Guðmundsson, formaður Félags háskólakennara, staðfesti þetta.

Skrifað var undir nýjan kjarasamning Félags háskólakennara og ríkisins í dag og kveðst Jörundur að öðru leyti ekki vilja ræða efnisatriði í samningnum.

Það eigi eftir að kynna hann fyrir félagsmönnum í hinum ýmsu stofnunum. Það verði ekki fyrr en að því loknu sem efni samninganna verði kynnt opinberlega í fjölmiðlum.

Um er að ræða aðfarasamning að lengri kjarasamningi á næsta ári.

„Við undirrituðum miðlægan kjarasamning í þeim dúr sem aðrir hafa fengið, til rúmlega eins árs. Eins og kemur fram í yfirlýsingu Kristínar Ingólfsdóttur háskólarekstors er unnið að lausnum fyrir okkur innanhús, sem við kynnum fyrir félagsmönnum. Það verður svo kosið um það.

Þetta eru margir hópar og margir stofnanasamningar sem þetta snertir. Í bili sýnum við okkar félagsfólki þá kurteisi að kynna samningana fyrst fyrir þeim. Samið var um 2,8% launahækkun í miðlægum kjarasamningi og svo er unnið að úrlausnum varðandi okkar kröfugerð innanhúss. Hjá háskólarektor er velvilji til þess að koma til móts við okkur,“ segir Jörundur sem kveðst eiga von á því að niðurstaða fáist í þessi atriði fyrir mánaðamót.

Samningaviðræðurnar hófust í byrjun febrúar og hefur boðuðu verkfalli dagana 25. apríl til 10. maí verið frestað, fram yfir prófin. Niðurstaða kosningar félagsmanna um samninginn liggur fyrir í síðasta lagi 10. maí.

Hafa tekið á sig launaskerðingu

Í yfirlýsingu rektors segir m.a.:

„Á undanförnum árum hafa félagsmenn Félags háskólakennara tekið á sig launaskerðingu, aukna kennsluskyldu og aukið álag vegna mikillar fjölgunar nemenda. Háskóli Íslands mun koma til móts við óskir Félags háskólakennara eftir fremsta megni.

Samhliða því treystir Háskóli Íslands á stuðning stjórnvalda, sbr. yfirlýsingu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar um Aldarafmælissjóð. Hún felur í sér að staðið verði við samning varðandi stefnumótun um fjármögnun Háskóla Íslands þannig að tekjur hans verði sambærilegar meðaltali framlaga OECD-þjóða til háskóla og síðar meir meðaltali framlaga háskóla á Norðurlöndum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert