Óslóarsíður norska dagblaðsins Aftenposten fjalla í dag um viðbrögð Íslendinga við fréttunum af því að Norðmenn muni ekki framvegis senda Íslendingum jólatré að gjöf. Segir þar frá því að Fabian Stang, borgarstjóri hafi séð sig knúinn til þess að skrifa grein í Morgunblaðið til þess að skýra afstöðu Norðmanna.
Í fréttinni er meðal annars vísað í frétt mbl.is af málinu. Þá er í fréttinni mikið fjallað um facebook-status Jóns Gnarr, borgarstjóra, í kjölfar fréttanna. Þar sagði: „Sorglegt. En hvað hafa Íslendingar nokkurn tímann gert fyrir Norðmenn? Nú, við rituðum sögu þeirra og Heimskringla var grundvöllur sjálfstæðis þeirra árið 1905. En hverjum er ekki sama um einhverjar gamlar bækur?“
Aftenposten sendi fyrirspurn á Jón Gnarr þar sem hann var spurður út í afstöðu sína í málinu. Jón segir í svari sínu að tendrun ljósanna á Óslóartrénu á Austurvelli sé þýðingarmikil uppákoma á Íslandi. Óslóartréð sé tákn um langvarandi vináttu Norðmanna og Íslendinga og að margir foreldrar mæti á tendrunina ár hvert með börnin sín.
Þá segist Jón í svari sínu hafa rætt við innlenda skógræktarstarfsmenn til þess að ganga úr skugga um að til séu nægilega stór grenitré hér á landi til þess að hafa á Austurvelli. „Ég er viss um að við finnum lausn sem hentar báðum borgunum,“ sagði Jón að lokum.
Frétt Morgunblaðsins: Vonast eftir sátt um tré
Frétt mbl.is: Eigum fallegri grenitré sjálf
Frétt mbl.is: Íslendingar fá ekki fleiri jólatré.