Tvísýnt um ferðalög vestur í dag

Skíðasvæði Ísafjarðar er lokað í dag.
Skíðasvæði Ísafjarðar er lokað í dag.

Ekki er víst að öllum sem stefndu á Ísafjörð um páskahelgina verði að þeirri ósk sinni, séu þeir ekki þegar komnir á áfangastað. Steingrímsfjarðarheiðin er nú ófær og tvísýnt um flug vestur vegna veðurs.

Skíðasvæðið á Ísafirði er lokað í dag vegna veðursins. Talsvert rok er í byggð að sögn lögreglu, en heimamenn og gestir létu veðrið þó ekki aftra sér frá skemmtanahaldi í gær. Það fór allt fram með ró og spekt.

Lögreglan á Hólmavík beinir því til fólks sem hyggur á ferð um Steingrímsfjarðarheiði að fylgjast vel með upplýsingum um færð á vegum. Í augnablikinu er heiðin ófær og lentu einhverjir ferðalangar í vandræðum þar í morgun.

Þá er hugsanlegt að tveimur flugferðum Flugfélags Íslands til Ísafjarðar verði aflýst í dag, gangi veðrið ekki niður. Sama má segja um flug til Akureyrar. Flogið var austur á Egilsstaði í morgun en aðrar ferðir á áætlun eru í biðstöðu þar til kl. 12 þegar tekin verður ákvörðun út frá veðri.

Vegagerðin mun sömuleiðis athuga í hádeginu í dag hvort hægt verði að ryðja heiðina eða ekki en þar er nú stórhríð. 

Snjóþekja eða hálkublettir eru á flestum leiðum á Vestfjörðum. Á Hálfdán og Mikladal er óveður og snjóþekja á vegi. Hálka og skafrenningur er á Klettshálsi. Óveður og hálkublettir eru á Hjallahálsi. Hálkublettir eru á Innstrandavegi og skafrenningur á Ennishálsi. Þungfært er norður í Árneshrepp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert