„Ég er mjög kvíðinn“

Ingólfur Axelsson hlaut í morgun blessun við athöfn í grunnbúðum …
Ingólfur Axelsson hlaut í morgun blessun við athöfn í grunnbúðum Everest. Leiðangur hans ætlar á tindinn. Af Facebook-síðu Ingólfs

Fjallgöngumaðurinn Ingólfur Axelsson segir að hann og hans lið muni halda sínu striki og klífa tind Everest. „Erum að fara upp á drottningu allra fjalla,“ segir Ingólfur í samtali við mbl.is. Vilborg Arna Gissurardóttir greindi frá því í gær að hún mun ekki halda leiðangri sínum áfram. „Ég er sátt við þessa ákvörðun,“ segir hún í samtali við mbl.is nú í morgun. Hún segir of snemmt að segja til um hvort hún muni ganga á Everest að ári. „Ég er ekki búin að taka neinar ákvarðanir ennþá og því of snemmt að segja til um það.“

Vilborg ætlaði sér að ganga á hæstu tinda allra heimsálfanna á einu ári. Everest var síðastur í röðinni. Hún er nú enn stödd í grunnbúðunum við Everest. „Ég geri ráð fyrir að leggja af stað úr grunnbúðum í fyrramálið og verð líklega komin til Katmandú þremur dögum síðar. Geri ráð fyrir að reyna að vera komin heim til Íslands fljótlega eftir það.“

Sjerparnir tóku ákvörðun án þrýstings

„Já, það er ljóst núna,“ segir Ingólfur spurður um hvort hann og leiðangur hans muni fara á tindinn en í gær tilkynntu mörg leiðangursfyrirtæki að þau væru hætt við að ganga á fjallið í ár. „Sjerparnir okkar tóku þessa ákvörðun án alls þrýstings,“ segir Ingólfur. Hann segir því leiðangurinn nú stefna á tindinn, nema að eitthvað óviðráðanlegt gerist. Hann segir að tveir sjerpar í hans leiðangri hafi misst mikið.

„En leiðangur okkar er fullmannaður og það er mikil samstaða að gera þetta með sem mestri virðingu,“ segir Ingólfur. Hann segir að í morgun hafi farið fram athöfn þar sem búnaður, sjerpar og fjallgöngumenn leiðangursins hafi hlotið blessun.

„Það eiga ekki allir afturkvæmt“

„Þetta er Everest og mér eins og öðrum var ljóst þegar við komum að það eiga ekki allir afturkvæmt,“ segir Ingólfur. Hann segist þó mjög kvíðinn að ganga á fjallið í kjölfar hörmunganna. „Ég er mjög kvíðinn og það verður ömurlegt að ganga í gegnum ísfallið. Mér finnst þetta erfiðara en ég bjóst við en það er líklega eðlilegt eftir slíkar hamfarir.

Hæðaraðlögunaræfingar byrja um helgina. Hann segir að til greina komi að fækka ferðum í gegnum snjóflóðið niður í 2-3 í stað 4-5 til að auka öryggi. Ingólfur segir að ráðgert sé að leiðangur hans nái toppi Everest þann 16. maí. „En við eigum eftir að fara í gegnum allan tilfinningarússíbanann þangað til.“

Frá því að Edmund Hillary og Tenzing Norgay klifu fyrstir tindinn árið 1953 hafa yfir 300 manns, aðallega leiðsögumenn, týnt lífi á fjallinu.

Bloggsíða Ingólfs

Facebook-síða Ingólfs

Vilborg Arna dvelur nú í grunnbúðum Everest.
Vilborg Arna dvelur nú í grunnbúðum Everest. Ljósmynd/Vilborg Arna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka