Líklegt er að tafir á Keflavíkurflugvelli vegna vinnustöðvunar flugvallarstarfsmanna verði meiri í dag en voru þann 8. apríl þar sem fleiri farþegar fara nú um stöðina en einnig þar sem færri eru á vakt við vopnaeftirlit en voru þann dag. Þetta segir Krisján Jóhannsson, formaður Félags flugvallarstarfsmanna.
Hann segir stéttarfélögin ekki hafa skipt sér af því hvernig mönnun vaktana tókst þar sem starfsmenn ráði því sjálfir hvort þeir komi í útkall á frídegi sínum. Hann segir strauminn um Keflavíkurflugvöll vera farinn að þyngjast þar sem farið er að draga nær sumri og eðli málsins samkvæmt sé því von á meiri töfum nú en varð raunin þann 8. apríl.
Ferðamenn sem mbl.is ræddi við á flugvellinum í morgun voru sumir hverjir ósáttir við upplýsingaflæðið í tengslum við verkfallið líkt og gerðist í síðasta vinnustoppi. Dennis Potter frá Manchester sem flaug hingað á föstudaginn segist ekki hafa vitað af því að þetta væri möguleiki fyrr en hann mætti í flug kl. 6 í morgun.
Á föstudag er önnur vinnustöðvun skipulögð og þá má búast við að röskunin verði enn meiri þar sem fleiri farþegar fara yfirleitt um Keflavíkurflugvöll þegar nær dregur helgi.