Veiðigjöld skili 9,45 milljörðum

mbl.is/Sigurður Bogi

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um veiðigjöld hefur verið kynnt þingflokkum stjórnarflokkanna samkvæmt tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu. Fram kemur að álagningin, sem gildi fyrir næsta ár, sé sambærileg við álagningu gjaldanna í ár að teknu tilliti til afkomu í sjávarútvegi. Áfram verði lög áhersla á að haga álagningu gjalda þannig að hún gangi ekki of nærri fyrirtækjum og taki tillit til aðstæðna á mörkuðum og ólíku rekstrarformi sjávarútvegsfyrirtækja. Með því móti sé stefnt að því að tryggja fjölbreyttan sjávarútveg á Íslandi.

Ennfremur segir að ákveðið hafi verið að fresta því að leggja fram frumvarp um samningaleið í sjávarútvegi og leigugjald sem unnið hafi verið að í vetur. „Enn eru óleyst nokkur tæknileg úrlausnarefni, fáir þingdagar eftir og svo umfangsmikið mál þarf ítarlegri umræðu en rúmast innan þingtímans. Frumvarp um veiðigjöld sem nú er lagt fram byggist á þeirri vinnu sem unnin hefur verið í vetur vegna álagningu veiðigjalda. Það eru vonbrigði að ná ekki að koma fram með þá heildarlausn sem unnið hefur verið að. Ég tel þó skynsamlegt að prófa gildi afkomustuðla við álagningu veiðigjalda í eitt ár áður en við innleiðum samninga um veiðirétt og leigugjald fyrir þá til lengri tíma. Enda eru þeir skref fram á við í þeirri viðleitni að dreifa gjöldunum á sanngjarnan hátt,“ er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Þá segir að vísbendingar séu um versnandi afkomu sjávarútvegsfyrirtækja árið 2103 sem meðal annars megi sjá í áætlunum um lægri tekjuskattsgreiðslur. Fiskverð hafi lækkað undanfarin misseri og lakar horfur séu á alþjóðlegum mörkuðum. Áætlað sé að veiðigjöld nemi 9,45 milljörðum á næsta fiskveiðiári án tillits til frádráttarliða.

„Veiðigjaldsnefnd hefur, að beiðni ráðherra, lagt fram líkan sem skilar svonefndum afkomustuðlum fyrir veiðar á hverri fisktegund. Afkomustuðlar eru reiknaðir út frá tekjum og kostnaði af veiðum samkvæmt tilteknum skilgreiningum og veiðigjöldunum verður síðan dreift á fisktegundir samkvæmt þeim. Á grunni þeirra og með hliðsjón af afkomuskiptingu á milli veiða og vinnslu í bolfiski annars vegar og uppsjávarfiski hins vegar, hefur verið ákvörðuð krónutala sem lögð verður á hverja fisktegund,“ segir ennfremur.

Þá segir að afsláttur vegna skulda sem stofnað hafi verið til vegna kaupa á aflaheimildum taki sömuleiðis breytingum. „Gildistími hans er styttur um 1 ár og afslátturinn reiknast upp árlega þannig að tekið er mið af skuldastöðu á hverjum tíma. Svokallað frítekjumark, fastur afsláttur af sérstöku veiðigjaldi, miðast nú við fasta krónutölu í stað tonnaafsláttar eins og var. Samkvæmt frumvarpinu munu fyrstu 250.000 kr. af sérstöku veiðigjaldi falla niður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert