Viðræðum frestað um óákveðinn tíma

Leifsstöð
Leifsstöð Sigurður Bogi Sævarsson

Samninganefndir flugvallastarfsmanna hafa í dag og í gær fundað í húsakynnum Ríkissáttasemjara með samninganefnd Samtaka atvinnulífsins og Isavia. Tilboðum samninganefndanna fyrrnefndu um lausn á kjaradeilunni hefur verið hafnað og frestaði Ríkissáttasemjari viðræðum um óákveðinn tíma í kvöld.

Samkvæmt upplýsingum frá Kristjáni Jóhannssyni, formanni og framkvæmdastjóra Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, ber mikið í milli hjá samningsaðilum. Hann segir að á fundunum í gær og dag hafi verið lagðar fram tillögur til lausnar kjaradeilunni. 

Annars vegar hafi verið lögð fram tillaga á launaflokkabreytingum og einnig um prósentuhækkanir á launatöflu. Hins vegar hafi verið lagt fram tilboð sem gilda myndi til 2016. Tilboðunum hafi verið ætlað að skapa starfsfrið og leiðrétta misræmi milli starfsmanna.

Kristján segir viðtökur samninganefndar Samtaka atvinnulífsins og Isavia á hugmyndum félaganna koma á óvart og svo virðist sem samningsvilja skorti hjá ríkishlutafélaginu Isavia.

Leiðrétt 24. apríl: Í fyrstu útgáfu fréttar kom fram að FFR legðu fram tillögu um 1% hækkun á launatöflu. Það var á misskilningi byggt og leiðréttist hér með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka