Vilborg lögð af stað heim

Vilborg Arna dvelur nú í grunnbúðum Everest.
Vilborg Arna dvelur nú í grunnbúðum Everest. Ljósmynd/Vilborg Arna

Vilborg Arna Gissurardóttir er lögð af stað niður úr grunnbúðum Everest. Fulltrúar nepalskra stjórnvalda komu í dag til fundar við sjerpa og þá gönguhópa sem hugðust halda áfram. Ingólfur Axelsson sagði fyrir fundinn að útlitið væri ekki gott og nú herma fregnir að fjallinu hafi verið lokað út árið.

Þeir sem keypt höfðu göngleyfi á fjallið þetta tímabil fá það hinsvegar framlengt til 5 ára. Vilborg Arna er nú stödd í 4.200 metra hæð í Periche og ljóst að tilfinningarnar eru blendnar.

Sorgmædd yfir atburðunum

„Þegar ég var hér síðast var ég full spennings og tilhlökkunar. Nú sit ég hér á sama stað og tilfinningarnar eru allt aðrar. Ég er mjög sorgmædd yfir atburðum síðustu daga. Fyrir rúmum 10 árum las ég bók um mannskæðasta slys í sögu Everest, mér fannst lesningin átakanleg en aldrei hefði mér dottið í hug að ég ætti eftir að upplifa næsta mannskæðasta slys í sögu fjallsins,“ segir Vilborg á bloggi sínu nú fyrir stundu.

Vilborg segir að sífellt fleiri teymi hætti við förina á Everest, vegna þess að sjerparnir treysta sér ekki til að halda áfram með tímabilið. Til viðbótar við sorg þeirra yfir hinum látnu sé málið nú komið í pólitískan hnút sem virðist vaxa frekar en hitt.

„Ég er mjög sátt vð ákvörðun mína að hverfa frá í þetta skiptið. Ég hugsaði málið út frá ýmsum sjónarhornum. Niðurstaðan var sú að ég vildi taka ákvörðun sem ég gæti lifað með. Ég hefði aldrei verið sátt með að fara með einhverjum upp sem væri ekki tilbúinn til þess eftir slysið,“ segir Vilborg og bætir við að hún hefði sennilega aldrei orðið sátt við myndina af sér á tindi Everest vð slíkar kringumstæður.

Pakka saman eftir fund með stjórnvöldum

Fulltrúar nepalskra stjórnvalda funduðu í dag með sjerpum á Everest og voru þeir fjallgönguhópar sem enn hugðust ganga einnig boðaðir til fundar. Ingólfur Axelsson sagði frá því á Facebook síðu sinni að hann væri á leið til fundar, og útlitið væri ekki gott.

Nú segir Afp fréttaveitan að eftir fundi dagsins séu flestir hópar í grunnbúðunum  byrjaðir að pakka saman og panta þyrlur til að flytja búnað sinn af fjallinu. Fregnir herma að fjallinu hafi formlega verið lokað það sem eftir er tímabilsins, en það hefur ekki fengist staðfest.

Engu að síður virðast flestir nú ætla að snúa heim. M.a. tilkynntu þrjú stór fjallgöngufyrirtæki fyrr í dag að öllum ferðum þeirra á fjallið hafi verið aflýst. Bandaríska fyrirtækið International Mountain Guides sagði að aðalgönguleiðin um Khumbu ísfallið, þar sem snjóflóði féll, sé einfaldlega of hættuleg sem stendur. 

Þá sagði bandaríska fyrirtækið RMI Expeditions að áhættan væri of mikil og vægi þyngra en möguleikinn á því að ná árangri. Kanadíski göngugarpurinn Tim Rippel, sem stýrir fyrirtækinnu Peak Freaks, lýsti því einnig yfir í morgun að hann teldi gönguleiðina ekki örugga og það væri raunveruleg hætta á fleiri snjóflóðum.

Gönguleyfið verður framlengt

Bæði erlendir göngumenn og sjerpar þurfa jafnan að kaupa leyfi til að ganga á Everest, sem gildir til eins árs. Leyfin kosta að lágmarki 11.000 Bandaríkjadali, sem er um 1,2 milljónir króna.

Mikil óánægja er meðal sjerpa eftir að 16 úr þeirra hópi létu lífið í slysinu fyrir tæpri viku, því mannskæðasta í sögu fjallsins. Margir sjerpar höfðu lýst því yfir að þeir myndu ekki fara fleiri ferðir á fjallið í ár en vegna þessa var mikil óvissa í hópi göngufólks, sem flest allt hefur þjálfað og safnað fé til göngunnar jafnvel í áraraðir.

Sú tillaga stjórnvalda að framlengja gönguleyfin til 5 ára, og gera göngufólki þannig kleift að snúa aftur síðar, virðist hafa lægt öldurnar. 

Vilborg Arna segir lífsreynslan síðustu daga sé nokkuð sem hún eigi alveg eftir að vinna úr, og ætlar hún að taka sér tíma til þess að gera það. Hún ætlar að staldra við nokkra daga í Katmandu áður en hún flýgur heim til Íslands.

Sjá einnig: „Ég er mjög kvíðinn“

Ingólfur Axelsson.
Ingólfur Axelsson. Af Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert