Kristján Jóhannsson, formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR), segir að ummæli Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í Fréttablaðinu í morgun um að flugvallarstarfsmenn séu með um hálfa milljón króna í mánaðarlaun hleypi illu blóði í sína félagsmenn.
„Þetta hleypir illu blóði í mitt fólk,“ segir hann í samtali við mbl.is og bætir við: „Maður heyrir alveg hvert þetta stefnir. Tónninn er orðinn harðari.“
Kristján segir að grunnlaunin í FFR séu um 250 þúsund krónur á mánuði.
„Ég er mjög ósáttur við ummæli framkvæmdastjórans. Þetta eru bara hrein og klár ósannindi sem hann fer með varðandi launakröfur og laun minna félagsmanna. Ég hefði viljað að hann hefði eytt aðeins meiri tíma í að kynna sér launakjörin,“ nefnir Kristján.
Í Fréttablaðinu í dag sagði Þorsteinn að flugvallarstarfsmenn væru að meðaltali með um hálfa milljón á mánuði í laun. Þeir krefðust síðan 25,6 prósenta hækkunar á mánaðarlaunum, sem myndi þýða 120 til 130 þúsund króna hækkun á mánaðarlaunum á samningstímanum. „Kröfur þeirra eru óásættanlegar,“ sagði Þorsteinn.
Í blaðinu er haft eftir Kristjáni að meðallaunin séu á bilinu 450 til 480 þúsund, með yfirvinnu, vaktaálagi og bílastyrkjum. Flugvallastarfsmenn fari fram á launaflokkahækkanir og prósentuhækkanir á launatöflu.
Um 425 starfsmenn Isavia á flugvöllum landsins lögðu niður störf klukkan fjögur í nótt, en vinnustöðvunin stendur til klukkan níu í dag. Kristján var mættur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar klukkan þrjú í nótt ásamt hátt í sjötíu verkfallsvörðum.
Aðspurður segir hann allt hafa verið með kyrrum kjörum í morgun. „Þetta var alveg eftir bókinni. Það er búið að fresta öllum brottförum og það eru engir sérstakir átakapunktar í gangi. Þetta hefur hingað til gengið mjög vel,“ segir hann.
Hann segir að langflestir farþegar sýni aðgerðum þeirra skilning. „Við höfum ekki orðið varir við neitt annað. Þetta seinkar flugi hjá fólki en það eru fáir sem verða beinlínis fyrir tjóni. Þetta eru samt óþægindi og með þessum aðgerðum erum við að reyna að vekja athygli á málstað okkar. Svoleiðis gengur þetta fyrir sig.“
Um er að ræða þriðju vinnustöðvun starfsmanna Isavia. Sú fyrsta var þann 8. apríl síðastliðinni og þá lögðu starfsmennirnir jafnframt niður störf seinasta miðvikudag. Kristján segir að svo geti verið að röskunin verði meiri í dag þar sem fleiri farþegar fari yfirleitt um flugvöllinn þegar nær dregur helgi.
Enn hefur ekki verið boðað til næsta samningafundar í kjaradeilunni. Allsherjarverkfall mun skella á 30. apríl næstkomandi hafi ekki samningar nást fyrir þann tíma.