Ferðir þúsunda raskast

Frá vinnustöðvuninni þann 8. apríl síðastliðinn.
Frá vinnustöðvuninni þann 8. apríl síðastliðinn. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Um 425 starfsmenn Isavia á flugvöllum landsins lögðu niður störf klukkan fjögur í nótt. Ætla má að aðgerðirnar raski ferðum allt að 7.000 farþega í millilandaflugi í dag, að mati Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair. Vinnustöðvunin mun standa til klukkan níu.

Þetta verður þriðja fimm tíma vinnustöðvun Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR), Stéttarfélags í almannaþjónustu (SFR) og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hjá Isavia síðan aðgerðir félaganna hófust.

Guðjón sagði ljóst að bæði Icelandair og ekki síður 15-20 þúsund farþegar hafi orðið fyrir töluverðum skakkaföllum vegna þessa. Hann taldi ferðir rúmlega 5.000 farþega Icelandair raskast í dag því seinkanir á flugi verði allan daginn. Að auki giskaði hann á að ferðir um 2.000 farþega annarra félaga röskuðust í dag.

Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli verður opin, en ekki verður byrjað að innrita farþega fyrr en kl. 9 og er gert ráð fyrir að öllu morgunflugi seinki um þrjá til fjóra klukkutíma vegna þessa.

Unnið verður eftir viðbragðsáætlun sem miðar að því að takmarka sem mest röskun og óþægindi. Flugfarþegum er bent á að fylgjast með tilkynningum á vefsvæðum flugfélaganna, Keflavíkurflugvallar eða Isavia um breytingar sem kunna að verða á flugáætlun, segir á vef Keflavíkurflugvallar.

Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli verður opin og farþegar Icelandair geta notað sjálfsinnritunarstöðvar fyrir kl 9:00 en hefðbundin innritun, farangursafhending og vopnaleit hefst ekki fyrr en eftir kl 9:00. Farþegar komast því ekki inn á fríhafnarsvæði eða að brottfararhliðum fyrr en eftir þann tíma.

Boðað hefur verið til verkfalls frá og með 30. apríl næstkomandi hafi ekki verið samið þá.

Inritun í flug á Keflavíkurflugvelli.
Inritun í flug á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka