Lögreglumanni hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur tímabundið verið vikið frá störfum vegna rannsóknar á meintum brotum hans í starfi. Samkvæmt heimildum mbl.is lýtur rannsóknin að óeðlilegum uppflettingum lögreglumannsins í Lögreglukerfi Ríkislögreglustjórans, LÖKE.
Sömu heimildir herma að lögreglumaðurinn hafi verið handtekinn fyrir páska þar sem hann var í sumarhúsi á landsbyggðinni. Að minnsta kosti tveir menn til viðbótar voru handteknir í þágu rannsóknarinnar, félagar lögreglumannsins. Ekki var krafist gæsluvarðhalds yfir neinum mannanna.
Samkvæmt því sem mbl.is kemst næst var það ábending til lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins sem leiddi til þess að máli lögreglumannsins var vísað til ríkissaksóknara og honum tímabundið vikið úr starfi. Ríkissaksóknari fól í kjölfarið embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum að fara með rannsóknina.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, neitaði alfarið að tjá sig um málið þegar eftir því var leitað og vísaði á embætti ríkissaksóknara. Þaðan hafa engin svör fengist við fyrirspurnum mbl.is. Þá hefur Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, jafnframt neitað að tjá sig um mál lögreglumannsins.