Félag fanga „höfuðlaust“

Fangelsið á Litla-Hrauni.
Fangelsið á Litla-Hrauni.

Fangar á Litla-Hrauni hafa sent undirskriftalista til innanríkisráðherra vegna þeirrar ákvörðunar fangelsismálastofnunar að færa formann félags fanga frá Litla-Hrauni og í fangelsið á Akureyri. Telja þeir að með því sé verið að reyna að fækka kvörtunum fanga.

Í bréfi sem stjórn Afstöðu, félags fanga, sendi innanríkisráðherra segir að félagið telji að þetta hafi verið með ráðum gert til að brjóta á bak aftur réttindabaráttu félagsins. „Afstaða, félag fanga, sem gegnt hefur hlutverki talsmanna fanga til margra ára, er nú orðið höfuðlaust vegna ákvörðunar fangelsismálastofnunar um að flytja Guðmund Inga Þóroddsson, formann Afstöðu, norður til Akureyrar gegn hans vilja.“

Þá segir að félagið hafi verið að ná sér á strik eftir síðustu skakkaföll. „Afstaða er búin að vera nánast lömuð síðan Fangelsismálastofnun gerði nákvæmlega það sama fyrir tæpum tveimur árum þegar þáverandi formaður Afstöðu var sendur til Akureyrar með sama hætti og nú.“

Stjórnin segir að fangelsismálastjóri telji betra að fækka kvörtunum fanga en að bæta úr hlutunum. „Afstaða lítur þetta alvarlegum augum og okkur finnst þessi vinnubrögð í hæsta máta óeðlileg. Við óskum þess innilega að þessi mál verði rannsökuð til hlítar af ráðuneytinu ásamt því að úr þessu verði bætt hið snarasta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert