Málflutningur fer fram í Hæstarétti á morgun í máli ákæruvaldsins gegn Gunnari Þ. Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, og Þórarni Má Þorbjörnssyni, fyrrverandi starfsmanni Landsbankans. Þeir voru í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdir fyrir að miðla trúnaðargögnum um alþingismanninn Guðlaug Þór Þórðarson til dagblaðsins DV.
Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur Gunnari og Þórarni sumarið 2012. Þeir voru ákærðir fyrir brot á þagnarskyldu með því að brjóta bankaleynd. Gunnar var talinn hafa nýtt sér aðstöðu sína til að ná í upplýsingar úr Landsbankanum um fjármál Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í gegnum Þórarin Má. Þeim gögnum var komið til Ársæls Valfells, lektors við Háskóla Íslands, sem aftur kom þeim til DV sem birti frétt byggða á gögnunum.
Gunnar var sakfelldur fyrir alvarlegt trúnaðarbrot þegar hann gegndi stöðu forstjóra Fjármálaeftirlitsins, sem hafi það hlutverk að sjá til þess að fjármálastarfsemi í landinu sé í samræmi við lög og reglur. Hann hafi þrátt fyrir það fengið Þórarin til þess að rjúfa þagnarskyldu sem á honum hvíldi og hlutast til um að trúnaðarupplýsingar bærust til fjölmiðla. Um ákveðinn ásetning hafi verið að ræða af hans hálfu.
Þórarinn var sakfelldur fyrir að miðla trúnaðarupplýsingum í starfi sínu hjá fjármálafyrirtæki en tekið fram að ekki hafi komið fram í málinu að hann hafi vitað að þeim yrði komið til fjölmiðils.
Héraðsdómur dæmdi Gunnar til að greiða tvær milljónir króna til ríkissjóðs en Þórarin til að greiða eina milljón króna.