Búið er að slökkva eld sem kom upp í lausum kennslustofum við Rimaskóla í Grafarvogi fyrir hádegi í dag. Stofurnar voru mannlausar er eldurinn kviknaði og hafa ekki verið í notkun um hríð. Nemendum var safnað saman í íþróttahúsinu. Engin hætta var á ferðum að sögn slökkviliðsins. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri, segir að forgangsmál hafi verið að halda börnunum rólegum. Veðrið hafi verið hagstætt fyrir slökkvistarf en logn og bjart er í dag.
Allt tiltækt lið slökkviliðsins var að störfum við Rimaskóla í dag en eldurinn logaði í fjórum, lausum kennslustofum. Að sögn varðstjóra slökkviliðsins eru tvær þeirra gjörónýtar en það náðist að koma í veg fyrir að eldurinn breiddist frekar út. Fremur litlar skemmdir urðu á tveimur byggingum.
Nemendur og starfsfólk eru í íþróttahúsi skólans þar sem starfsfólk Rauða krossins og slökkviliðsins eru með þeim og veita þeim áfallahjálp sem á þurfa að halda. Nafnaköll voru gerð á sal til að ganga úr skugga um að allir nemendur væru á staðnum.
Stofurnar sem brunnu hafa ekki verið notaðar um hríð og eru í töluverðri fjarlægð frá aðalbyggingu skólans.
Slökkviliðsmenn hafa rætt við börnin og sagt þeim að engin hætta hafi verið á ferðum en mörgum þeirra brá nokkuð er eldurinn kom upp og rýma þurfti skólann og skólalóðina.
Jón Viðar slökkviliðsstjóri segir að mikill hiti hafi verið frá eldinum, svo mikill að málning flagnaði af veggjum í öðrum stofum sem eru næstar og notaðar sem skólasel.
Að sögn nemenda og starfsfólks sem mbl.is ræddi við urðu húsin þar sem eldurinn kviknaði fljótt alelda og mikinn, svartan reyk lagði yfir skólalóðina. Rúður í aðalbyggingunni sem sneru að eldinum hitnuðu, en eldurinn var þó staðbundinn við skólaselin sem eru úr við og fuðruðu upp.
Frétt mbl.is: Eldsvoði í Rimaskóla