Skólastofurnar sem fuðruðu upp við Rimaskóla í dag voru í eigu Svifflugfélags Íslands. Félagið keypti þær í júlí í fyrra en hafði ekki sótt þær þrátt fyrir ítrekaðar óskir borgaryfirvalda. Grunur leikur á að fikt hafi verið orsök eldsins.
Kristján Sveinbjörnsson, formaður Svifflugufélags Íslands, segir að félagið hafi lengi reynt að fá að flytja stofurnar, en án árangurs. Hann segir að tjónið geti verið á bilinu fjörutíu til fimmtíu milljónir króna.
Að sögn Hrólfs Jónssonar, skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg, var gengið frá sölusamningi við Svifflugfélags Íslands í byrjun júlí 2013. Þar var kveðið á um að kaupandinn skuldbindi sig til að flytja stofurnar burt fyrir lok þess mánaðar.
„Það var búið að greiða fyrir þær og við gerðum bara ráð fyrir að þær yrðu fluttar. Það er oftar en einu sinni og oftar en tvisvar búið að hafa samband við þá og biðja þá um að taka stofurnar. Síðast á föstudaginn var haft samband og því hótað að samningnum yrði rift ef þeir færu ekki með stofurnar. Það er ekki búið að vera eitthvert tómlæti af hálfu Reykjavíkur gagnvart þessum stofum,“ segir Hrólfur.
Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem er með brunann í rannsókn eru vísbendingar um að upptökin hafi verið fikt með eld sem hafi farið úr böndunum.
Kristján segir að félagið hafi nú í rúmt ár reynt að fá að flytja stofurnar á Sandskeið. Það hafi hins vegar ekki borið neinn árangur. „Okkur hefur gengið mjög illa að fá að flytja stofurnar. Við héldum að það yrði ekkert mál en annað kom á daginn,“ segir hann. Ráðuneyti, Kópavogsbær og Samgöngustofa hafi meðal annars komið í veg fyrir það. Nefnir hann valdníðslu í þessu sambandi.
„Þetta er verulegt tjón af því leyti að okkur vantar þessi hús og þurfum þá annað hvort að byggja þau eða kaupa ný. Við ætluðum að nota þessi hús sem geymslu annars vegar og viðbyggingu við félagsskálann hins vegar,“ segir Kristján og bætir við að tjónið geti verið á bilinu fjörutíu til fimmtíu milljónir króna. „Svo er spurning hvort við fáum það bætt að einhverju leyti eða öllu leyti. Það er alveg óljóst.“