Krefst ekki hælis heldur áheyrnar

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tók í dag við kröfu mótmælenda …
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tók í dag við kröfu mótmælenda um mál Ghasem Mohammadi verði skoðað. mbl.is/Þórður A.

„Mér þætti mjög undarlegt að nokkur setti sig á móti því að íslenska ríkið taki að minnsta kosti viðtal við strákinn,“ segir Benjamín Julian, sem fór fyrir hópi mótmælenda við innanríkisráðuneytið í dag þar sem þess var krafist að mál hælisleitandans Ghasem Mohammadi fái efnislega meðferð.

Ghasem er tvítugur Afgani sem hefur verið á Íslandi í tvö ár án þess að mál hans fái meðferð hér. Undanfarna 7 daga hefur Ghasem hvorki borðað né drukkið, í von um að vekja athygli á máli sínu. 

„Hann hefur farið tvisvar á sjúkrahús og fengið vökva í æð, en það er ekki læknir hjá honum núna þótt Rauði krossinn hafi heimsótt hann. Ég var sjálfur hjá honum áðan og hann leit mjög veiklulega út. Hann mun þurfa að komast undir læknis hendur mjög fljótlega,“ segir Benjamín.

Ræddu við innanríkisráðherra

Ghasem biður að hans sögn ekki um skilyrðislaust hæli, heldur um að vera ekki sendur úr landi án þess að saga hans fái að heyrast. 45 manns mættu við innanríkisráðuneytið í hádeginu í dag og afhentu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur ráðherra áskorun um að tryggja hælisumsókn Ghasem málsmeðferð.

Þegar þetta er skrifað hafa 530 manns skrifað undir áskorunina á netinu.

Benjamín segir að Hanna Birna hafi tekið við áskoruninni, en þegar á hana var gengið um hvort hún gæti ekki hlutast til um málið af meiri krafti, hafi hún sagt að hennar vald væri lítið í þessu máli. 

„Hún sagðist vilja flýta málsmeðferð hælisleitenda, en talaði ekkert um að bæta hana. Ef Ghasem vildi bara fá styttri tíma áður en hann er sendur aftur til Afganistan, þá væri hann þegar farinn,“ segir Benjamín.

Eitt og hálft ár í biðstöðu

Ghasem kom til landsins sumarið 2012 og sótti hér um hæli, en hafði þá áður sótt um hæli í Svíþjóð og verið hafnað. Þar sem Svíþjóð var fyrsta landið sem tók mál hans til skoðunar eiga íslensk stjórnvöld rétt á því, samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, að krefjast þess að Svíar taki við honum aftur án þess að málið fái efnislega meðferð hér. 

Það var gert þegar sumarið 2012, en Ghasem er ósáttur við að vera sendur til baka án þess að mál hans sé skoðað sjálfstætt hér. Hann kærði niðurstöðu Útlendingastofnunar í nóvember 2012, og síðan þá hefur mál hans verið í biðstöðu.

Hjörtur Örn Eysteinsson, lögmaður Ghasem, segist ekki hafa fengið neina skýringu frá innanríkisráðuneytinu á töfunum. Hann skilaði inn greinargerð milli jóla og nýárs 2012. „Þau eru búin að hafa núna eitt og hálft ár til að taka ákvörðun í málinu, sem er ennþá til úrskurðar. Þetta er búið að taka mjög langan tíma.“

Í útlendingalögum (nr. 96/2002) segir um málshraða að ákvörðun í máli útlendings skuli tekin svo fljótt sem unnt er og upplýsa beri viðkomandi reglulega um stöðu málsins.

Hjörtur segir að töfin að staðan sem Ghasem er í sé því miður ekki einsdæmi, heldur sé ákveðinn flöskuháls í innanríkisráðuneytinu sem geri það að verkum að margir bíði svars. Staðan sé sérstaklega óbærileg í málum þeirra sem eru skilgreindir í Dyflinarmeðferð, því þeir fái ekki útgefið bráðabirgðar atvinnuleyfi, vegna þess að mál þeirra eiga taka svo stuttan tíma. 

Raunin sé hinsvegar önnur. „Þeir eru því í raun ekki að gera neitt, bara bíða. Þeir njóta ekki aðstoðar eða stuðnings á meðan og mega ekki vinna.“ Ghasem er orðinn örvæntingarfullur á biðinni eftir eitt og hálft ár og því hættur að nærast. Í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 í síðustu viku sagðist hann frekar vilja deyja á Íslandi en fara aftur til Afganistans.

Vill að lágmarki fá viðtal

Benjamín segir að þótt Íslendingar megi lögum samkvæmt senda Ghasem til baka án málsmeðferðar, þá sé þess nú krafist að mál hans sé skoðað sjálfstætt hér. Hann bendir á að fordæmi séu fyrir því að fólk fái hér hæli, þrátt fyrir að samkvæmt Dyflinnarreglugerð hefði verið heimilt að senda það burt.

„Það sem hann er að biðja um er að það sé athugað sjálfsætt hvort hann eigi rétt á hæli, en ekki að það sé vísað bara í úrskurði sem hafa fallið í öðrum löndum. Þetta er í raun mjög einfalt mál þar sem sjálfræði Íslands er ríkt. Það er enginn alþjóðleg stofnun að fara að banna neinum að skoða málið. Mér þætti mjög undarlegt að nokkur setti sig á móti því að íslenska ríkið taki að minnsta kosti viðtal við strákinn.“

Ráðuneytið lofar hraðri afgreiðslu

Innanríkisráðuneytið birti yfirlýsingu á vef sínum nú síðdegis vegna máls Ghasem, þar sem segir að ráðuneytið muni afgreiða mál hans svo fljótt sem verða má með hliðsjón af ástandi hans. „Ráðuneytið hefur fylgst með ástandi mannsins í dag og verður frekari umönnun hans ákveðin í dag og honum veitt nauðsynleg heilbrigðisþjónusta.“

Þá segir að mikil vinna hafi farið fram innan ráðuneytisins að undanförnu til þess að hraða málsmeðferð hælisleitenda. Frumvarp sem að því miður bíður nú lokaafgreiðslu á Alþingi.

„[Er] það von ráðuneytisins að sá biðtími sem umræddur hælisleitandi og fleiri hafa þurft að búa við styttist til muna,“ segir á vef ráðuneytisins.

Lögreglan stóð vörð við innanríksiráðuneytið í dag en mótmælin fóru …
Lögreglan stóð vörð við innanríksiráðuneytið í dag en mótmælin fóru friðsamlega fram. mbl.is/Þórður A.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tók í dag við kröfu mótmælenda …
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tók í dag við kröfu mótmælenda um mál Ghasem Mohammadi verði skoðað. mbl.is/Þórður A.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tók í dag við kröfu mótmælenda …
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tók í dag við kröfu mótmælenda um mál Ghasem Mohammadi verði skoðað. mbl.is/Þórður A.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert