Líklega ekki skrifað undir í nótt

Ekkert verður flogið til og frá landinu fari starfsmenn Isavia …
Ekkert verður flogið til og frá landinu fari starfsmenn Isavia í verkfall á miðvikudaginn. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Samninganefndir flugmálastarfsmanna hjá Isavia og Samtaka atvinnulífsins funda enn í húsakynnum ríkissáttasemjara en fundur hefur staðið yfir frá klukkan 10 í morgun. Kristján Jóhannsson, formaður og framkvæmdastjóri Félags flugmálastarfsmannaríkisins, segir að fundað verði áfram fram á nótt en telur ólíklegt að skrifað verði undir samning í nótt.

Kristján telur líklegt að fundað verði á morgun en vildi í samtali við mbl.is ekki tjá sig um hvort samninganefndirnar sæju til lands eftir langan dag við samningaborðið.

Rúmur sólarhringur er nú til stefnu áður en allsherjarverkfall hefst á flugvöllum landsins, hafi samningar ekki nást.

Flugmálastarfsmenn hjá Isavia hafa nú lagt niður störf þrisvar sinnum tímabundið í nokkrar klukkustundir en miðvikudaginn 30. apríl hefst allsherjarverkfall sem þýðir að ekkert verður flogið hvorki til og frá landinu né innanlands.

Samtök atvinnulífsins áætla að gjaldeyristap þjóðarbúsins vegna boðaðs verkfalls muni nema milljarði króna fyrir hvern dag sem flug liggur niðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert