Nemendur Rimaskóla eru komnir inn í skólabygginguna að nýju eftir eldsvoðann þar fyrr í dag. Að sögn Helga Árnasonar, skólastjóra, verður yngri nemendum kennt áfram í dag en nemendur á unglingastigi fengu að fara heim.
Hann segir að slökkviliðið hafi heimilað að nemendur mættu fara inn stofur sínar að nýju um tólf leytið. Einhverjum nemendur var ansi brugðið þegar eldurinn blossaði upp, að sögn Helga, en eftir að hann og starfsmenn slökkviliðsins og Rauða krossins höfðu rætt við þá róuðust þau mjög.
Að sögn Helga metur slökkvilið og lögregla það þannig að skólinn hafi brugðist hárrétt við en nemendur voru úti í frímínútum þegar eldurinn kviknaði í viðbyggingu skólans. Alls eru viðbyggingarnar fjórar talsins og eru tvær þeirra ónýtar. Engir nemendur né starfsmenn voru í viðbyggingunum þegar eldurinn kviknaði.
Vel gekk að koma nemendum inn í íþróttasal skólans þar sem þau dvöldu í um hálftíma á meðan slökkviliðið var að störfum. Viðbragðsáætlun skólans miðar að því að koma nemendum út úr skólanum - ekki inn í skólann - en allt gekk vel, segir Helgi. Þar fari saman rúmir gangar, gott aðgengi að íþróttahúsinu og hagstæð vindátt.