Þrjátíu starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis á Djúpavogi og fjörutíu á Húsavík hafa skráð sig á lista fyrirtækisins um að þiggja tilboð um að flytjast búferlum frá sínum heimabyggðum og til Grindavíkur. Þar með heldur það vinnu sinni.
Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, í umræðum á Alþingi í dag.
Eins og greint hefur verið frá hefur fyrirtækið ákveðið að hætta fiskvinnslu á Húsavík, Þingeyri og Djúpavogi og flytja hana til Grindavíkur.
„Við horfumst í augu við stórkostlegustu hreppaflutninga síðari tíma. Þetta gerir auðvitað aðstæður heimamanna enn þá erfiðari og viðkvæmari en ella hvað varðar mögulegar mótvægisaðgerðir því að fólkið verður einfaldlega farið. Þannig verður staðið að þessari aðgerð,“ sagði Steingrímur.
Hann sagðist jafnframt sakna þess að stjórnvöld skuli ekki hafa látið betur til sín taka.
„Ég hef lítið heyrt frá ríkisstjórn og stjórnarþingmönnum, satt best að segja, en þessir hlutir eru að gerast og það er lítill tími til stefnu. Hér í salnum situr að vísu hæstvirtur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og er það vel, en það er ekki tími til að hanga yfir þessu máli.
Það þarf að koma til móts við óskir heimamanna um mótvægisaðgerðir nú þegar og gera þær opinberar svo að skriða brottflutnings frá stöðunum skelli ekki á,“ sagði Steingrímur.