„Viðræðum miðaði ágætlega svo það kom okkur á óvart að það skyldi slitna upp úr, en það greinilega varð ekki ráðið við það,“ segir Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um tæplega sólarhringslangan fund í Isavia-deilunni. Allt útlit er fyrir allsherjarverkfall í nótt.
Samninganefndir SA fyrir hönd Isavia og FFR og SFR fyrir hönd flugvallarstarfsmanna sátu á fundi frá klukkan 10 í gærmorgun til klukkan að ganga 7 í morgun eða tæpan sólarhring.
Frekari fundur hefur ekki verið boðaður í dag og óvíst hvort svo verði. Frá skrifstofu ríkissáttasemjara fengust þær upplýsingar að til lítils sé að halda fund eftir slíka maraþonsetu hafi afstaða manna ekkert breyst. Ekki er þó útséð um að fundur verði boðaður síðdegis.
Samtök atvinnulífsins segja að reynt hafi verið til þrautar að ná samningum á fundinum í nótt og samninganefnd þeirra hafi verið vongóð um að grundvöllur væri til staðar til að skrifa undir nýjan kjarasamning í dag og afstýra boðuðu verkfalli.
Samninganefndir flugvallarstarfsmanna hafi hinsvegar ekki litið svo á, heldur slitið viðræðum. „Það er alveg óljóst hvernig framhaldið verður,“ segir Þorsteinn. Hann segir að SA hafi verið reiðubúið að halda viðræðum áfram í morgun, en flugvallarstarfsmenn hafi staðið upp frá borðinu.
„Boltinn er þeirra megin og þetta verður bara að koma í ljós,“ segir Þorsteinn. Aðspurður hvort hann telji að ríkisstjórnin muni setja lög á verkfallið segir hann ekki sitt að segja til um það. „En það er alveg ljóst að ef það kemur til þess að hér stoppi allt flug þá hefur það alvarlegar afleiðingar.“
Ekki hafa fengist svör frá innanríkisráðuneytinu um hvort til greina komi að setja lög á verkfallið. Ríkisstjórnarfundur stendur nú yfir þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir gerir grein fyrir stöðunni.
Að óbreyttu mun allsherjarverkfall hefjast kl. 4 í nótt. Það þýðir að allt innanlands- og utanlandsflug stöðvast, bæði farþegaflug og vöruflutningar. SA reiknar með að kostnaður þjóðarbúsins við verkfallið verði a.m.k. milljarður á dag.