Markmiðið er að kveikja innblástur og fá Hnitbjörgin í lið með okkur til að leysa sköpunargáfuna úr læðingi,“ segir Margrét Lóa Jónsdóttir rithöfundur og ljóðskáld sem ætlar að vera með ritsmiðju fyrir 8-14 ára börn á listasafni Einars Jónssonar.
„Umhverfið er mjög heillandi, þetta magnaða safn og verkin þar geta án efa vakið innblástur með krökkunum. Verk Einars eru svo frásagnarkennd og þetta er spennandi heimur sem krakkar hrífast mjög auðveldlega af. Í verkum hans lifna þjóðsögurnar við með útilegumönnum og nátttröllum, en þarna eru líka víkingar og drekar. Ímyndunaraflið fer hæglega á flug og það er auðvitað skemmtilegt þegar maður hefur kveikjur allt í kring hér á safni Einars.
Margrét Lóa tekur fram að markmiðið sé ekki að endursegja sögur, heldur að kveikja hugmyndir að nýjum sögum eða jafnvel búa til hliðarsögur. „Eitthvað sem kemur upp þegar hugsað er um þjóðsögur, náttúru Íslands, norræna goðafræði og öll þau tákn sem Einar var hallur undir. Þetta verður gaman því börn eru svo skapandi, þetta er enn allt svo opið hjá þeim. Þau eru full af ævintýrum. Börn eru algerlega abstrakt hugsandi og skapandi, en svo rjátlast þetta því miður oft af með aldrinum. Jafnvel á unglingsaldri eru þau byrjuð að loka. En þá þarf að reyna að snúa lyklinum aðeins í skránni og minna fólk á barnið sem í því býr. Þeir sem eru svo lánsamir að fást við sköpun eða til dæmis heimspekiiðkun fá enn að svamla um í heimi bernskunnar þar sem frelsið og ímyndunaraflið virðist nær draumvitundinni. Í smiðju sem þessari er nauðsynlegt að nálgast barnið í okkur.“
Margrét Lóa segist ætla að tala um listamanninn Einar Jónsson við krakkana sem koma í smiðjuna. „Við ætlum að sýna þeim myndir af honum og annað frá honum, þannig að hann verði svolítið nálægur. Við ætlum að sýna þeim íbúðina hans í safninu þar sem hann bjó, því hún er enn eins og hún var á hans tíma. Og sama má segja um vinnustofuna hans. Þetta er magnað og ævintýralegt umhverfi, svo ekki sé minnst á garðinn. Listasafn Einars var fyrsta listasafnsbyggingin sem var reist á Íslandi og markar byggðina á Skólavörðuholtinu. Þetta safn reis eins og drungalegur kastali á hæðinni þar sem ekkert var í kring og við ætlum einnig að sýna krökkunum gamlar myndir frá þeim tíma. Þannig sjá þau líka hversu mikill frumkvöðull hann var.“
Margrét Lóa segir að afraksturinn, sögur krakkanna sem mæta í smiðjuna, muni verða aðgengilegur gestum safnsins. „Við ætlum að safna þessu öllu saman, vera dugleg að taka fullt af myndum og vonandi getum við líka tengt myndbönd þar sem krakkarnir flytja sögurnar sínar. Mér sem ljóðskáldi finnst mikilvægt að minna á að texti er saminn til að hljóma. Munnmælasögur hafa ratað til okkar líkt og þjóðsögurnar, og með sögusmiðju og flutningi krakkanna skapast tenging við þessa hringrás fortíðarinnar.“
Tölvupóstur tilskráningar er: lej@lej.is