Reynt til þrautar að semja

Samninganefndir FFR, SFR og LSS og SA fyrir hönd Isavia hafa setið á samningafundi frá því í gær en þeim lauk nú á sjöunda tímanum án árangurs. Ekki hefur verið boðaður nýr fundur í deilunni.

Samkvæmt upplýsingum frá Kristjáni Jóhannssyni, formanni Félags flugmálastarfsmanna ríkisins náðu viðsemjendur ekki saman á grunni þeirra tillagna sem fyrir lágu. Hann segir að þrátt fyrir að ekki sé búið að boða næsta fund þá eigi hann von á því að ríkissáttasemjari hafi samband við samninganefndirnar í dag og boði til annars fundar síðar í dag. Ef ekki tekst að semja hefst verkfallið klukkan fjögur í fyrramálið.

Skelli á ótímabundið allsherjarverkfall yfir 400 flugvallarstarfsmanna hjá Isavia á flugvöllum landsins næstu nótt verður tugum áætlunarflugferða með þúsundir farþega aflýst strax á fyrsta degi verkfallsins. Allt flug til og frá landinu og innanlandsflug leggst þá niður.

Tugir flugferða í millilandaflugi falla niður strax á morgun ef verkfallið skellur á en í dag eru til samanburðar 65 komur og brottfarir áætlaðar á Keflavíkurflugvelli.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mun gera grein fyrir stöðunni vegna yfirvofandi verkfalls á ríkisstjórnarfundi fyrir hádegi í dag. 

Að sögn Kristjáns er eðlilegt að rætt sé um að mögulega verði sett lög á verkfallið enda muni það hafa gríðarleg áhrif. „Ég lýt á það sem algjöra skyldu okkar að halda áfram alveg þar til það er örugglega fullreynt að ekki semjist. Við þurfum að taka stöðuna hjá okkar hópi í dag og átta okkur á því hversu mikið ber á milli,“ segir Kristján og bætir við að hann voni að samninganefndirnar nái samkomulagi.

Engar upplýsingar hafa fengist um það af hálfu stjórnvalda hvort mögulega verða sett lög á verkfallið. Eftir því sem næst verður komist er ekki búist við að ríkissáttasemjari grípi til heimildar sem hann hefur að ákveðnum skilyrðum uppfylltum til að leggja fram miðlunartillögu til lausnar deilunni. Ekki er gripið til þess ráðs þegar mjög mikið ber í milli viðsemjenda í kjaradeilum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka