Ghasem Mohamadi, hælisleitandi frá Afganistan sem er í hungurverfkalli, lagði leið sína í innanríkisráðuneytið í dag þar sem hann afhenti tæplega 900 undirskriftir við áskorun um að hælisumsókn hans fái efnislega meðferð.
8 dagar eru síðan Ghasem hóf hungurverkfall. Hann hefur tvisvar farið á sjúkrahús og fengið blóðvökva í æð, en í morgun heilsaðist honum ágætlega og fékk hann sér vatn að drekka, en hann hefur enn ekkert borðað.
Í fréttatilkynningu frá aðstandendum undirskriftarsöfnunar til stuðnings Ghasem segir að honum hafi borist þær fréttir í gær að þegar hafi verið tekin ákvörðun í máli hans, áður en hungurverkfallið hófst á mánudaginn í síðustu viku.
Enginn hefur hinsvegar haft samband við hann af hálfu yfirvalda til að greina honum frá ákvörðuninni, heldur ekki eftir að hann hætti að borða og drekka.
Áskorun um að íslensk stjórnvöld veiti Ghasem efnislega meðferð var afhent Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra í gær. Tæplega 900 undirskriftir söfnuðust áskoruninni til stuðnings og tók skrifstofustjóri innanríkisráðuneytisins við þeim í morgun.
Sjá einnig: Krefst ekki hælis heldur áheyrnar