Verkfalli frestað til 22. maí

Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Útlit er fyrir að samningar náist í kjaradeilu flugvallastarfsmanna og Isavia í kvöld eða nótt. Í trausti þess hafa forsvarsmenn flugvallastarfsmanna ákveðið að fresta verkfalli til 22. maí nk. Niðurstaða úr atkvæðagreiðslu um nýjan samning á að liggja fyrir 15. maí.

Fram eftir degi var útlit fyrir að allsherjarverkfalli skylli á í nótt en það þýddi að allt innan- og utanlandsflug stöðvaðist, bæði farþegaflug og vöruflutningar. Samtök atvinnulífsins reiknuðu með að kostnaður þjóðarbúsins við verkfallið yrði að minnsta kosti milljarður króna á dag.

„Nú er búið að ná samkomulagi. Það á eftir að ganga frá ýmsum textum og lagfæra og gera samninginn og við verðum í því núna fram eftir kvöldi. En í trausti þess að þetta er handsalað, þá fresta starfsmenn verkfallinu og þar með getur þetta allt farið að rúlla með eðlilegum hætti,“ segir Magnús Pétursson ríkissáttasemjari.

Eftir að samningurinn hefur verið undirritaður fer hann í kynningu og boðað verður til atkvæðagreiðslu um hann í kjölfarið en niðurstaða úr henni á að liggja fyrir 15. maí nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert