„Ég ætla því að leyfa mér að eiga áfram gott samstarf við sveitarstjórnarmenn á þessum stöðum, ræða við þá hvaða lausnir kunna að vera fyrir hendi, en við munum ekki hér, þingmenn, taka einhliða ákvörðun um það að það eigi að vera tiltekinn atvinnurekstur á tilteknum stað eða að við ætlum að fara í ákveðnar aðgerðir án samráðs. Við verðum að eiga samráð til þess að þær aðgerðir sem kann að verða ráðist í skili sem mestum árangri.“
Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í umræðum um ákvörðun útgerðarfyrirtækisins Vísis í Grindavík að leggja niður starfsemi sína á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík. Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, hóf umræðuna og spurði að því til hvaða aðgerða ráðherrann og ríkisstjórnin ætluðu að grípa. Minnti hann í því sambandi á að Sigmundur væri ekki aðeins forsætisráðherra heldur einnig fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis.
Sakaði Vísi um „ótrúlega ósvífni“
„Við getum ekki beðið lengur, það er bara ekki hægt. Og þess vegna verða stjórnvöld að sýna strax hvað við ætlum að hafa í boði vegna þess að þarna snýst þetta um fisk og kvóta,“ sagði Kristján og kallaði eftir því að við úthlutun kvóta í haust fyrir nýtt kvótaár væri tekinn frá ákveðinn þorskkvóti til samfélagslegra aðgerða. Sakaði hann Vísi um að axla ekki þá samfélagslegu ábyrgð sem fylgdi því að hafa kvótann að láni frá þjóðinni. Sagði hann framgöngu fyrirtækisins „ótrúlega ósvífni“.
Sigmundur ítrekaði að stjórnmálamenn ættu ekki að segja fólki fyrir verkum um það hver eigi að vera lausnin á hverjum stað heldur leysa málin í samráði við fólkið á staðnum. „Hins vegar er þetta ákaflega mikilvæg áminning um mikilvægi þess að þau lög og þær reglur sem stjórnmálamenn setja séu ekki til þess fallin að setja neikvæða hvata og jafnvel hættulega. Þess vegna er svo mikilvægt að menn hverfi af þeirri braut sem síðasta ríkisstjórn lagði upp með að skattleggja sjávarútveginn á þann hátt að það ýti undir og nánast krefjist samþjöppunar, krefjist samþjöppunar í greininni.“
„Landið væri á hausnum ef þú hefðir náð þínu fram“
Spurði Sigmundur hvernig staðan væri ef skattleggja hefði átt sjávarútveginn 23-24 milljarða eins og síðasta stjórn boðaði. Þá hefði þurft að velta fyrir sér slíkri stöðu um allt land. Sem betur fer væru stjórnvöld í aðstöðu til þess að bregðast við vandanum á umræddum stöðum vegna þess að kerfið væri ennþá til þess fallið að leysa úr svona málum. Komið hefði verið í veg fyrir allsherjarhrun með því að stöðva stefnu síðustu ríkisstjórnar.
Þegar Sigmundur mælti þessi lokaorð heyrðust mótmæli úr röðum stjórnarandstöðuþingmanna úr þingsalnum. Þegar hann sté úr ræðustólnum sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, við hann: „Er þetta það eina sem þú hefur að segja við fólkið á þessum stöðum? Þetta skítkast.“ Sigmundur svaraði: „Landið væri á hausnum ef þú hefðir náð þínu fram.“