Sinnuleysi stjórnvalda vonbrigði

Sveitarstjórn Djúpavogs krefst þess að tryggðar verði sambærilegar aflaheimildir og …
Sveitarstjórn Djúpavogs krefst þess að tryggðar verði sambærilegar aflaheimildir og hverfa úr byggðarlaginu með Vísi hf. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það þarf enga brothætta byggð til þess að það sé áfall þegar 25-30% af vinnuaflinu missir mögulega vinnuna. Það væri högg fyrir hvaða sveitarfélag sem er,“ segir Gauti Jóhannesson sveitarstjóri á Djúpavogi. Horfur eru á að 30 starfsmenn Vísis hf í bænum flytji burt.

Á Djúpavogi búa um 470 manns. Um 50 manns á staðnum vinna hjá Vísi hf., sem hyggst nú flytja alla fiskvinnslu sína til Grindavíkur. Þar af hafa um 30 manns skráð sig á lista fyrirtækisins um að þiggja tilboð um að fylgja því, flytja burt og halda þar með vinnunni. Um 40 manns á Húsavík hafa gert slíkt hið sama, samkvæmt því sem fram kom á Alþingi í gær.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna í norðausturkjördæmi, kallaði þetta „stórkostlegustu hreppaflutninga síðari tíma“ og sagðist sakna þess að stjórnvöld láti ekki betur til sín taka í málinu.

Gauti tekur undir þetta. „Umræðan um þessi mál hefur ekki verið mikil og það sem stendur upp úr hvað okkur varðar er hvað viðbrögð þingmanna hafa verið lítil, því að gangi þetta eftir, þá er um grafalvarlegt mál að ræða og ég hefði vonast eftir markvissari innkomu stjórnvalda fyrr.“

Á sveitarstjórnarfundi Djúpavogshrepps nú fyrir helgi var samþykkt bókun þar sem þess var krafist að stjórnvöld grípi nú þegar til aðgerða „svo afstýra megi meiriháttar bakslagi í veiðum og fiskvinnslu á Djúpavogi.“ Þar er bent á að þetta sé í annað sinn á fáum árum sem hreppurinn verður fyrir miklu höggi í sjávarútvegi, því árið 2006 hvarf öll uppsjávarvinnsla af svæðinu.

„Sveitarstjórn krefst þess af stjórnvöldum að nú þegar verði tryggðar sambærilegar aflaheimildir og fyrirsjáanlegt er að hverfi úr byggðarlaginu til að [afstýra] hruni í bolfiskvinnslu á Djúpavogi,“ segir í ályktuninni.

Einn stjórnarþingmaður mætti á fund

Ítrekað hefur verið reynt að ná stjórnarþingmönnum kjördæmisins saman til fundar ásamt sjávarútvegsráðherra vegna stöðunnar en án árangurs. Gauti segir að fjórir þingmenn hafi mætt til fundar sem Samtök sveitarfélaga á Austurlandi boðuðu vegna málsins, þar af einn úr stjórnarliðinu.

„Það var náttúrlega mun minni mæting heldur en allir höfðu vonast til, í ljósi þess hvað þetta er í raun og veru stórt mál,“ segir Gauti. Í kjölfar sveitarstjórnarfundarins í síðustu viku sendi hann út boð til þingmanna um að koma austur sem fyrst, en Gauti segir lítil viðbrögð hafa verið við því.

Ekki brothættari en aðrar byggðir

Þótt málið sé alvarlegt fyrir byggðarlagið gagnrýnir Gauti hvernig því hefur verið stillt upp í umræðunni. „Ég hafna því alfarið að við séum tilgreind sérstaklega sem „brothætt byggð“ eins og gert hefur verið.“

Hann segir Djúpavog skera sig úr sveitarfélögum á Austurlandi sökum fólksfjölgunar þar. Atvinnuástand hafi verið gott og 8,2% íbúa séu börn 5 ára og yngri; það er yfir landsmeðaltalinu sem er um 7%.

„Það þarf enga brothætta byggð til þess að líta á það sem áfall þegar 25-30% af vinnuaflinu mögulega missir vinnuna. Það væri högg fyrir hvaða sveitarfélag sem er í þeirri stöðu, settu bara Kópavog í þetta samhengi eða hvaða bæ sem er. Við erum þá öll brothætt ef það er tilfellið.“

Aðspurður hvort þeir sem hyggi á brottflutning í bænum myndu vilja vera um kyrrt hefðu þeir þess kost segist Gauti ekki geta talað fyrir hönd annarra. Hinsvegar líti sveitarstjórnin svo á að málið hafi enn ekki verið leitt til lykta, en aðgerðir þurfi að koma sem fyrst. 

„Þessi óvissa er ekki góð og því fyrr sem þetta mál verður leitt til lykta, hvernig sem það verður, því betra.“

Sjá einnig:

70 starfsmenn flytja til Grindavíkur

Aðgerðir Vísis veruleg vonbrigði

Fái frið til þess að finna lausn

Vísir vill milda áhrifin af flutningunum

Vísir „ber mikla samfélagslega ábyrgð“

Skora á Vísi að hætta við áformin

Hryggjarstykki sjávarþorpanna að bresta

„Þetta er áfall“

„Hryggjarstykkið í atvinnulífinu á Djúpavogi“

Öll starfsemi Vísis til Grindavíkur

Fjöldi fólks flutti aftur á Djúpavog að loknu námi og …
Fjöldi fólks flutti aftur á Djúpavog að loknu námi og er hlutfall barna í sveitarfélaginu hátt. mbl.is/Golli
Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi.
Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert