Þyrftu mörg að rífa sig upp með rótum

Frá höfninni á Djúpavogi. Fiskvinnsla Vísis er einn stærsti vinnustaður …
Frá höfninni á Djúpavogi. Fiskvinnsla Vísis er einn stærsti vinnustaður hreppsins. mbl.is/Golli

„Það er mjög óákveðið hvað er framundan hjá fólki, en það er allavega vitað mál að fólki mun fækka hér,“ segir Reynir Arnórsson, trúnaðarmaður starfsmanna Vísis hf. á Djúpavogi.

Á Djúpavogi starfa um 50 manns við fiskvinnslu hjá Vísi hf., sem stefnir á að flytja starfsemi sína til Grindavíkur. Starfsfólki hefur verið boðið að fylgja fyrirtækinu burt og flytja til Grindavíkur. 

Hluti af samfélaginu þótt það sé aðkomufólk

Aðspurður segir Reynir það orðum aukið að fyrir liggi 30 manna listi yfir starfsmenn sem ætli að flytja burt, sumir geti hugsað sér að flytja en aðrir ekki og margir hafi ekki tekið endanlega ákvörðun um það. Hann játar því að óvissan sé óþægileg.

„Hér er náttúrulega hellingur af fólki sem þyrfti að rífa sig upp frá sínum heimahögum og fasteignum að auki. Það er ekki þannig að menn hlaupi bara til Grindavíkur með glöðu geði. Hér er fólk með fjölskyldur, hvort sem það eru útlendingar eða Íslendingar, og með börn bæði í skóla og leikskóla.“

Reynir segir það rangt sem haldið hefur verið fram í umræðunni, að meirihluti starfsfólks í fiskvinnslunni sé útlendingar eða erlendir farandverkamenn sem geti auðveldlega flutt sig úr stað.

„Er aðkomumaður útlendingur ef hann er búinn að vera á Djúpavogi eða á Íslandi í 10, 14 ár? Þetta er fólk sem er með íslenskan ríkisborgararétt og ætlar að vera á Íslandi, þetta eru Íslendingar. Auðvitað eru einverjir einstaklingar inn á milli sem koma til að vinna tímabundið, en hér er fólk sem er búið að vera hér í fjölda ára og er hluti af samfélaginu.“

Ekki verið að skella alveg í lás

Fulltrúi frá Vísi hf. kemur á Djúpavog í næstu viku til að fara yfir stöðu mála með starfsfólki og ræða framhaldið. Eins og staðan er núna segir Reynir að engin endanleg tala sé komin á það hverjir fara suður, né hvenær.

„Vísir stefnir á að reka hér áfram slátrun á lax og silung úr fiskeldi og þar munu einhverjir halda áfram störfum, þannig að í raun og veru er ekki verið að skella hér alveg í lás þótt það þurfi að fækka starfsfólki. “

Sem stendur sé þó biðstaða hjá flestum á meðan þess sé beðið að myndin skýrist af hálfu Vísis. „Þau ætla að miðla til okkar upplýsingum, en það er verið að ganga þarna frá þremur fyrirtækjum sem er ekki gert einn, tveir og bingó. Ég hef ekki trú á því að það sé með glöðu geði sem þeir fara á milli og tilkynna fólki um þetta.“

Gáttaður á þingmönnum kjördæmisins

Reynir tekur undir með Gauta Jóhannessyni, sveitarstjóra á Djúpavogi, sem lýsti í samtali við mbl.is í morgun vonbrigðum með sinnuleysi stjórnvalda í málinu. 

„Menn eru mjög ósáttir við þá lítilsvirðingu sem þingmenn sýna okkur með því að sýna engan áhuga á að koma hér. Það er einn þingmaður sem gerði sér ferð hingað til okkar á Djúpavog, og það var Steingrímur sem skoðaði fyrirtækið alveg frá A til Ö. Maður er bara gáttaður á þessu.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er þingmaður norðausturkjördæmis. Hann gaf sér ekki tíma til að mæta á fund sem Samtök sveitarfélaga á Austurlandi buðu til og raunar mættu aðeins fjórir þingmen, þar af einn úr stjórnarliðinu.

„Núna eru ekki kosningar til Alþingis, en það er alveg á hreinu að þegar menn koma ríðandi um landið til að redda sér atkvæðum fyrir næstu kosningar, þá verðum við ekki búin að gleyma þessu.“

Sjávarútvegur - löndun - kvóti - fiskur - sjómenn - …
Sjávarútvegur - löndun - kvóti - fiskur - sjómenn - Djúpavogur mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
Um 470 manns búa á Djúpavogi. Þar af hafa um …
Um 470 manns búa á Djúpavogi. Þar af hafa um 50 starfað við fiskvinnslu hjá Vísi hf. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert