Vilja vera dæmdir af verkum sínum

Höfnin er hjarta bæjarins í Djúpavogi og þar er starfsemi …
Höfnin er hjarta bæjarins í Djúpavogi og þar er starfsemi Vísis hf. áberandi. mbl.is/Golli

„Við lítum á þetta sem alveg heilsársverkefni að koma þessu sæmilega frá okkur og leggjum metnað okkar í að viðskilnaðurinn verði sem bestur,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vísis hf. um brottflutning á fiskvinnslu fyrirtækisins úr þremur sjávarplássum til Grindavíkur.

Mánuður er nú liðin síðan fyrirætlanirnar voru fyrst kynntar. Mörgum var mjög brugðið og enn ríkir talsverð óvissa um hve margt starfsfólk muni fylgja starfseminni og flytja burt af sínum heimaslóðum, með tilheyrandi höggi fyrir fámenn sveitarfélög.

Pétur segir að málin séu að skýrast dag frá degi og hann sé sjálfur bjarstsýnni nú en fyrir mánuði síðan að hægt verði að leysa málin farsællega á hverjum stað.

„Vitum talsvert um fólkið okkar“

Greint hefur verið frá því að um 30 af 50 starfsmönnum Vísis á Djúpavogi hyggist flytja burt, en það er um 20-30% af vinnuafli hreppsins, þar sem búa tæp 470 manns. 

Pétur segir það þó einföldun að 30 starfsmenn hafi skráð sig á lista um að þiggja tilboð um búferlaflutninga, eins og Steingrímur J. Sigfússon sagði á Alþingi í gær. Hinsvegar hafi verið rætt við starfsmenn einn af öðrum til að kanna hvernig málin horfi við þeim. Rauði þráðurinn hafi frá upphafi verið að bjóða fólki ýmist sömu vinnu á nýjum stað, eða nýja vinnu á sama stað.

„Staðan er þannig á Djúpavogi að um helmingur af starfsfólkinu telur sér fært að flytja sig um set með fyrirtækinu. Þetta er nokkurn veginn eftir þeirri áætlun sem við gerðum í upphafi. Við vitum talsvert um fólkið okkar og þóttumst vita að það væri um helmingur sem ætti erfitt með að færa sig um set.“

Starfsemin verður óbreytt á Djúpavogi fram að sumarfríi, en eftir sumarfrí verður fiskvinnslan flutt, ásamt því starfsfólki sem vill fylgja með. Ný starfsemi tekur við af þeirri sem hverfur, með blönduðum störfum í þorski og slátrun á eldisfiski, þar sem þeir sem eftir verða á Djúpavogi geta unnið áfram.

„Málin á Djúpavogi eru ekki alveg frágengin til lengri tíma, en þannig förum við af stað inn í haustið,“ segir Pétur. „Ef aðstæður breytast þá skoðum við það, eftir því sem kaupin gerast á eyrinni. Það er enginn starfsmaður búinn að skuldbinda sig til neins. Fólk getur gripið til þeirra ráðstafana sem passar þeim best og við reynum að hjálpa öllum við það.“

Varpar ekki ábyrgðinni á stjórnvöld

Steingrímur J. Sigfússon kallaði í gær eftir mótvægisaðgerðum í sveitarfélögunum sem um ræður og furðaði sig á því að stjórnvöld láti ekki betur til sín taka. Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi, lýsti sömuleiðis vonbrigðum með sinnuleysi stjórnvalda í morgun því fáir þingmenn hafi sýnt áhuga á að kynna sér málið með því að þekkjast boð um fund á Austurlandi.

Aðspurður hvort hann telji stjórnvöld eiga að hafa meiri aðkomu að málinu segist Pétur ekki viss um að þau geti gripið til beinna aðgerða eins og málin standa, en ættu hinsvegar að fylgjast vel með.

„Ég kasta ekki ábyrgðinni á ríkið um að það eigi að redda þessu. En ég veit að byggðastofnun fylgist með og stjórnvöld ættu að vera á hliðarlínunni, hlusta á það sem kemur fram og vera tilbúin að taka við erindum sem berast þegar þeir sem vinna að lausn þessara mála eru tilbúnir að láta eitthvað gerast.“

Meðal þess sem hefur verið í skoðun er möguleg uppbygging nýrra starfa í sveitarfélögunum, í samvinnu við Íslenska sjávarklasann (samstarfsvettvang fyrirtækja í haftengdri starfsemi). 

Pétur segir Vísi einnig vera í sambandi við aðila við ýmsar hugmyndir, m.a. um að nýta húsin sem fyrirtækið skilur eftir. „Þetta tekur allt tíma en það er margt að gerast sem af eðlilegum ástæðum er ekki hægt að segja frá strax.“

Vilja vera dæmdir af verkum sínum

Nú er unnið að því að hjálpa þeim sem vilja flytjast til Grindavíkur að finna þar húsnæði og hafa m.a. verið festar 5 íbúðir í blokk sem þar hefur staðið nánast tóm í mörg ár. Pétur áréttir þó að Vísir hf. sé ekki að kaupa húsnæði heldur hafa milligöngu um að hjálpa fólki að skoða hvað sé í boði.

„Það er mjög gaman að vinna að því að byggja þetta upp í Grindavík. Það er skemmtilega hliðin, en áskorunin felst í því að skilja vel við og styðja við bakið á þeim sem ekki geta komið með okkur. Og við viljum vera dæmdir af þeim verkum í lokin.“

Siglt heim til hafnar á Djúpavogi.
Siglt heim til hafnar á Djúpavogi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
Pétur Hafsteinn Pálsson er framkvæmdastjóri Vísis hf.
Pétur Hafsteinn Pálsson er framkvæmdastjóri Vísis hf. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert