Helgi Daníelsson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, lést á Sjúkrahúsi Akraness í gær, 81 árs að aldri. Hann var landsliðsmarkvörður í knattspyrnu á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.
Helgi Biering Daníelsson var fæddur á Akranesi 16. apríl 1933. Foreldrar hans voru Sesselja Guðlaug Helgadóttir húsmóðir og Daníel Þjóðbjörnsson múrarameistari.
Helgi lærði prentiðn og starfaði við fagið hjá Ísafoldarprentsmiðju. Hann vann hjá Sementsverksmiðju ríkisins og var lögreglumaður og síðar lögregluvarðstjóri á Akranesi. Hann varð rannsóknarlögreglumaður hjá Sakadómi Reykjavíkur 1972, síðar lögreglufulltrúi hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins og yfirlögregluþjónn.
Helgi var virkur í félagsmálum, meðal annars fyrir Alþýðuflokkinn á Akranesi og í Vesturlandskjördæmi, og starfaði mikið að íþróttamálum á Akranesi og sem stjórnarmaður og um tíma formaður í Knattspyrnusambandi Íslands.
Hann lék knattspyrnu með Val og ÍA og var markvörður í hinu fræga gullaldarliði Skagamanna og varð Íslandsmeistari þrisvar sinnum. Helgi var markvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu 1951 til 1965 og lék 25 landsleiki.
Helgi skrifaði mikið í Morgunblaðið og fleiri dagblöð, um íþróttir og þjóðmál. Eftir starfslok í lögreglunni gafst honum tækifæri til að sinna ljósmyndun sem var lengi áhugamál hans. Hann gaf út nokkrar bækur, meðal annars um ættfræði og sögu og mannlíf Grímseyjar.
Eftirlifandi kona hans er Steindóra Steinsdóttir, fyrrverandi deildarstjóri. Þau eignuðust þrjá syni, Friðþjóf Arnar, Stein Mar og Helga Val.
Morgunblaðið færir Helga þakkir fyrir langt samstarf og vináttu við starfsmenn þess og sendir aðstandendum hans samúðarkveðjur.