„Það að vera með spjallþátt í sjónvarpi er í eðli sínu óvissa. Maður getur aldrei gengið að neinu vísu með hversu lengi hann lifir. Sem skemmtikraftur er það undantekning að menn séu í fastri vinnu. Stjórnendur eru bjartsýnir á að það takist að fá nýtt hlutafé og ég er bjartsýnismaður að eðlisfari,“ segir Pétur Jóhann Sigfússon. Öllu starfafólki sjónvarpsstöðvarinnar Bravó var sagt upp í vikunni en leikarinn segist halda ró sinni enda verða ekki breytingar á högum hans og þátturinn verður áfram á dagskrá stöðvarinnar.
„Það er ekki verið að skella í lás. Bravó og Mikligarður halda áfram en mér skilst að verið sé að leita nýs hlutafjár,“ segir Pétur Jóhann í viðtali sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.
Í viðtalinu ræðir Pétur Jóhann ferilinn og samstarfið við Jón Gnarr auk þess sem hann biður fyrir kveðju til Davíðs Oddssonar sem hann hitti á dögunum.