Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hafnað var kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að blaðamanni, sem var vitni í hinu svokallaða lekamáli, sem snýst um gögn sem bárust fjölmiðlum um málefni hælisleitenda, yrði gert að svara spurningum um tilurð fréttar. Fréttin birtist á mbl.is þann 20. nóvember síðastliðinn en jafnframt var fjallað um málið í Fréttablaðinu og á visir.is.
Lögreglustjórinn óskaði eftir því við héraðsdóm að vitnið yrði látið svara því hver skrifaði frétt vefsins, mbl.is, um mál tveggja hælisleitenda. Héraðsdómur hafnaði kröfu lögreglustjórans og komst Hæstiréttur að sömu niðurstöðu.
Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms var talið að lögreglustjórinn hefði ekki leitað allra leiða sem færar væru til að upplýsa málið en farið var fram á að vitnið svaraði spurningum lögreglu. Af þeim sökum hefði lögreglustjórinn ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að nauðsyn bæri til þess að grípa til úrræðis 3. mgr. 119. gr laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Eftir að héraðsdómur kvað upp úrskurð sinn tók lögreglustjórinn skýrslur og aflaði jafnframt frekari gagna í tengslum við rannsókn málsins. Taldi hann að við svo búið væru úr vegi þær hindranir sem héraðsdómur taldi vera við því að lagt yrði mat á hvort skilyrði 3. mgr., sbr. a. lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008.
Hæstiréttur taldi á hinn bóginn að eftir öflun fyrrgreindra gagna hefði lögreglustjórinn átt að leggja beiðni sína um skýrslutöku vitnisins fyrir dómi öðru sinni fyrir héraðsdóm, en ekki að kæra úrskurð héraðsdóms til að fá leyst úr kröfunni. Það væri hlutverk Hæstaréttar að endurskoða úrlausn héraðsdóms, en ekki að leysa úr máli á fyrsta dómstigi.
Staðfesti Hæstiréttur því hinn kærða úrskurð og dæmdi varnaraðila málskostnað sem greiðast skuli úr ríkissjóði.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2014 en varnaraðili krafðist staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.