Sagt upp eftir jafnréttisumræðu

Í Sambíóunum hefur lengi tíðkast að strákarnir gegni fyrst og …
Í Sambíóunum hefur lengi tíðkast að strákarnir gegni fyrst og fremst hlutverki dyravarða, en stelpurnar sinni miðasölu og sjoppuafgreiðslu. mbl.is/

Tvær ungar konur fengu í vikunni uppsagnarbréf eftir 4 ára störf hjá Sambíóunum. Þeim var sagt að ástæðan sé skipulagsbreytingar en svo vill til að báðar voru nýverið viðriðnar umræðu á Facebook um kynjaskiptingu verkefna í vinnunni. Aðrir starfsmenn veigra sér nú við því að gagnrýna vinnustaðinn.

Annar starfsmaður sem mbl.is ræddi við og vinnur enn í bíóinu, segir að þar hafi engar frekari upplýsingar verið gefnar um meintar skipulagsbreytingar. Hinsvegar sé andrúmsloftið rafmagnað þar núna eftir að fréttist að samstarfskonur þeirra hefðu verið reknar. Hann vill ekki koma fram undir nafni af ótta við að missa starfið.

„Eftir þetta þá þorir fólk ekki að tjá sig lengur. Við vorum búin að stinga upp á að halda kannski starfsmannafund um þetta mál, en það voru frekar lítil viðbörgð við því. Núna veit maður eiginlega ekkert hvernig maður á að haga sér, fólk er hrætt um að missa eitthvað út úr sér og vera rekið.“

Stelpur og strákar sinna ekki sömu störfum

Í Sambíóunum starfar fyrst og fremst ungt fólk, um og innan við tvítugt, við afgreiðslustörf og er mikill meirihluti þeirra stelpur. Þar hefur lengi tíðkast að strákarnir gegni fyrst og fremst hlutverki dyravarða, en stelpurnar sinni miðasölu og sjoppuafgreiðslu. Stundum er þó strákur ráðinn til að afgreiða í sjoppunni, en ekki öfugt.

Starsfmaðurinn sem mbl.is ræddi við nafnlaust segir augljóst óhagræði í þessari verkaskiptingu milli kynja. Það þýði t.d. að strákarnir hafi mun færri staðgengla veikist þeir eða vilji skipta um vaktir, því stelpurnar geti ekki gengið í þeirra störf.

„Ég hef alveg lýst því yfir að ég sé til í að ganga í öll störf, því það gæti komið sá dagur að maður þyrfti á því að halda, til dæmis ef einhver veikist. Líka bara upp á fjölbreytni í starfi.“

Sjoppan lítur betur út með stelpu en strák

Nýlega reyndi á þetta í Sambíóunum í Álfabakka, þegar Sesselja Þrastardóttir var á vakt sem verkstjóri. „Þar er sjoppa uppi og niðri og við höfum skipt því á milli krakkanna að fara niður því það finnst engum gaman að vera þar. Næstur í röðinni var starfsmaður sem er strákur, en stuttu eftir að ég sendi hann niður þá sendir yfirmaður minn hann aftur upp. Ég spyr hvers vegna, og þá svarar hann að stelpurnar séu duglegri og sjoppan líti betur út ef það er stelpa í henni. Mér fannst þetta náttúrulega bara alveg fáránlegt,“ segir Sesselja.

Í kjölfarið kom póstur frá yfirmanninum þar sem sagði að framvegis yrði reglan sú að ef strákur væri á sjoppuvakt mætti aldrei senda hann einan í sjoppuna niðri. Sesselja sýndi eldri systur sinni þennan póst og hún ákvað að segja frá málinu á Facebook hópnum „Kynlegar athugasemdir,“ sem er vettvangur fyrir fólk til að deila reynslusögum um kynbundna mismunun í samfélaginu.

Sesselja sjálf kom aldrei að umræðunni á Facebook, aðeins systir hennar. Samstarfskona hennar hjá Sambíóunum, Brynja Sif Sigurjónsdóttir, kom þar hinsvegar framundir nafni. Hún var sú sem send var til að taka við af stráknum sem mátti ekki vera einn í sjoppunni og sagði orðrétt á Facebook að sér þætti erfitt að skilja þessa ákvörðun yfirmannsins, enda væri enginn munur á starfsreynslu hennar eða stráksins sem um ræðir. Virtist því kynið eitt ráða.

Stuttu eftir að umræðan hófst á Facebook fékk Sesselja símtal frá Alfreð Ásberg Árnasyni, framkvæmdastjóra Sambíóanna, sem var ekki sáttur að hennar sögn. „Ég reyndi að útskýra þetta fyrir honum og spurði hvort honum finndist þetta ekki fáránleg regla en hann tók ekki undir það,“ segir Sesselja.

Þriggja lína uppsagnarbréf eftir 4 ára starf

Þetta var í byrjun apríl. Í þessari viku var þeim Brynju og Sesselju báðum sagt upp. Brynja segir að skýringin sé skipulagsbreytingar, en þær eigi erfitt með að trúa því að þetta sé tilviljun enda hafi þær báðar tengst þessari gagnrýnu umræðu, og engum öðrum úr 40 manna starfsliði verið sagt upp.

„Við erum báðar búnar að vinna þarna í fjögur ár og aldrei verið neitt vandamál. Svo fékk ég bara þetta bréf inn um lúguna á þriðjudagskvöld,“ segir Brynja.

Sesselja fór til fundar við Alfreð Ásberg Árnason, framkvæmdastjóra Sambíóanna, og óskaði eftir nánari skýringum á skipulagsbreytingunum, en fékk þau svör að allt sem þær þyrftu að vita stæðu í uppsagnarbréfinu, sem er þrjár línur.

Alfreð hefur ekki svarað fyrirspurn mbl.is um málið í dag og frá skrifstofu Sambíóanna fengust þau svör að hann væri ekki til viðtals.

Ekki óalgengt að starfsfólk óttist þöggun

Þær Sesselja og Brynja leituðu til VR í kjölfar uppsagnarinnar, en var sagt að það væri lítið hægt að gera.

Þorsteinn Skúli Sveinsson, starfsmaður VR á sviði kjaramála, sagði í samtali við mbl.is, um almenna réttarstöðu fólks á vinnumarkaði, að vinnuveitanda beri að gefa starfsmanni skýringu á uppsögn óski hann eftir því, en lítið sé hægt að gera í því þótt sú skýring sé dregin í efa.

„Vinnuveitandi getur sagt að þetta séu skipulagsbreytingar, jafnvel þótt launþegi haldi að eitthvað annað liggi að baki. Svo lengi sem vinnuveitandinn virðir reglur kjarasamnings um uppsagnarfrest og annað, þá er ekkert sem bannar að hann segi starfsmönnum upp.“

Aðspurður segir Þorsteinn að inn á borð til VR komi dæmi þess að fólk veigri sér við að segja skoðun sína um starfshætti á vinnustað. „Fólk tjáir sig stundum um það þegar það kemur til okkar, að það sé eitthvað á vinnustaðnum sem það telur að þyrfti að breyta, en það þorir ekki að segja frá því af ótta við að vera sagt upp.“

„Maður má greinilega ekki tjá sig“

Starfsmaðurinn sem mbl.is ræddi við í skjóli nafnleyndar segir að brottrekstur Sesselju og Brynju virki á suma í starfsliðinu eins og hálfgerð kúgun. „Maður fattar að maður má greinilega ekki tjá sig og alls ekki hallmæla neinu sem kemur manni ekki við.“

Þess má reyndar í þessu samhengi geta að á kaffistofu starfsfólks í Sambíóunum hangir stór mynd af stofnanda bíósins, Árna Samúelssyni, með texta þar sem segir að þegar hann kemur í bíó beri starfsmönnum að þekkja hann. Þeim beri að vera kurteisir, hæla öllum þeim myndum sem sýndar eru í Sambíóunum og megi ekki tala vel um myndir sem eru í öðrum bíóum.

Aðspurðar segjast þær Sesselja og Brynja ekki vissar um hvort þess sé vænst af þeim að þær vinni út 3 mánaða uppsagnarfrest eða ekki. „Það er bara ekkert talað við okkur.“

Pósturinn sem kom frá yfirmanni um þá reglu að strákar …
Pósturinn sem kom frá yfirmanni um þá reglu að strákar megi ekki vera einir í sjoppunni. Svona var hann birtur á Facebook, en nafn bíósins og yfirmanns hafði verið tekið út.
Frá Sambíóunum Álfabakka.
Frá Sambíóunum Álfabakka. mbl.is/Jim Smart
Plakat sem hangir á kaffistofu starfsfólks Sambíóanna í Álfabakka, um …
Plakat sem hangir á kaffistofu starfsfólks Sambíóanna í Álfabakka, um æskilega hegðun í návist eigandans.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert