Eldavél Guðna komin út á mitt gólf

Fjörugar umræður. Guðni Ágústsson, Rakel Þorbergsdótir og Hallgrímur Helgason í …
Fjörugar umræður. Guðni Ágústsson, Rakel Þorbergsdótir og Hallgrímur Helgason í þætti Gísla Marteins í morgun. Skjáskot af RÚV

Það var farið með vísur um skvísur og frosið hor í sjónvarpsþættinum Sunnudagsmorgunn á RÚV í dag. 

Hallgrímur Helgason rithöfundur fór með vísu sem hann orti um innkomu og útgöngu Guðna Ágústssonar á hið pólitíska svið nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga:

Guðni kom og Guðni fór

Guðni er eins og vorið

fyrst þá heyrðist fuglakór

svo fraus í honum horið

Guðni sagðist hafa séð þessa vísu og benti á að er hann ákvað að bjóða sig ekki fram til forystu í Framsóknarflokknum í borginni hafi fjórar konur skipað sér í efstu sætu listans. 

Þá hafi Helgi Seljan vinur hans og afi Helga Seljans, fréttamanns í Kastljósinu, ort:

Yrkja mætti ótal vísur

um eðliskosti þessa manns

ekki færri en fjórar skvísur

fylla þurftu í skarðið hans

Hallgrímur spurði Guðna hvort hann gæti kosið Framsóknarflokkinn í vor. „Þetta er sko framboð á bak við fjórar eldavélar,“ sagði Hallgrímur og vitnaði þar í meint ummæli Guðna um stöðu konunnar sem einmitt voru rifjuð upp á netinu er hann var að velta fyrir sér að bjóða sig fram.

„Allar konur sem þekkja mig vita að ég er kvenfrelsisins maður, ég styð konur,“ sagði Guðni. „Ég átti líka að vera stelpa og heita Guðný. Foreldrar mínir voru búnir að eignast fimm stráka í röð og dreymdi um stelpu.“

Guðni minnti svo á að hann á þrjár dætur. „Svo varð þessi fræga saga til (um að staða konunnar væri á bað við eldavélina). Svo ætlaði ég að fara að bera þetta af mér þá sagði konan mín: Ekki gera það Guðni, þetta er svo skemmtileg saga.“

Guðni sagði að nú væri margt breytt. „Nú er svo eldavélin komin út á mitt gólf svo það er pláss á bak við hana.“

Fréttir mbl.is:

Guðni: Ég plægði akurinn

Rakel var tvístígandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert