Rakel Þorbergsdóttir, nýr fréttastjóri RÚV, segist hafa verið tvístígandi að sækja um fréttastjórastöðuna. „Því maður þekkir gallana og það gustar oft vel um okkur,“ sagði hún í umræðum í sjónvarpsþættinum Sunnudagsmorgunn á RÚV.
Hún segir skiljanlegt að fréttastofa RÚV sé gagnrýnd. „Við erum að gæta hagsmuna almennings. Það væri skrítið ef við þyldum ekki að í okkur væri hnýtt.“
Hún segir þá gagnrýni sem sett sé fram þó mismálefnalega. „En það er ekki til neins að vera að spá í það.“
Rakel segir að þegar hún hafi tekið við starfinu af Óðni Jónssyni hafi sumir litið svo á að allt myndi breytast um leið. Þannig sé það hins vegar ekki. Hún hafi þó sínar áherslur sem hún muni framfylgja. „Fréttastofan hefur ekki stefnu eða skoðun í ákveðnum málum.“
Rakel segist fá bréf frá fólki sem eigi hagsmuna að gæta í ákveðnum fréttum. Hún segist þakka fyrir slíkt og stundum beri hún málin undir viðkomandi fréttamann.
Rakel hefur starfað lengi hjá RÚV. Staða fréttastjóra var svo auglýst laus til umsóknar í mars. „Ég var tvístígandi um það hvort ég ætti að sækja um því maður þekkir gallana og því að það gustar oft vel um okkur.“
Hún segir hins vegar nýjan útvarpsstjóra, Magnús Geir Þórðarson,hafa náð að hrífa fólk með sér. „Og maður trúir því að við getum gert ýmsar breytingar.“
Frétt mbl.is: Guðni: Ég plægði akurinn