Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu Vestmannaeyjabæjar og ógilt samning um kaup Síldarvinnslunnar á öllum eignarhlutum í Bergi-Hugin ehf. af félaginu Q44 ehf., sem er í eigu útgerðarmannsins Magnúsar Kristinssonar. Bærinn taldi að hann ætti rétt á að ganga inn í kaupsamning á grundvelli forkaupsréttar sveitarfélags að fiskiskipum í samræmi við 12. grein laga um stjórn fiskveiða.
Vestmannaeyjabær stefndi Q44 og Síldarvinnslunni og krafðist þess að ógiltur yrði með dómi samningur um kaup Síldarvinnslunnar á öllum eignarhlutum í Bergi-Hugin af Q44 ehf. sem var dagsettur í ágúst 2012. Jafnframt krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.
Q44 og Síldarvinnslan kröfðust sýknu af öllum kröfu bæjarins.
Félögin héldu því fram að það væri bæði „afkáralegt“ og „óhugsandi“ að bjóða Vestmannaeyjabæ forkaupsréttinn þar sem þá hefði þurft að gefa Bergi-Hugin ehf. kost á að „kaupa skipin sem þeir eiga eða hlutafé í sjálfum sér“. Dómari segir að þessu beri að hafna.
„Vestmannaeyjar hafa frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar verið ein helsta verstöð landsins. Þrátt fyrir þá samþjöppun sem orðin er hérlendis á sviði útgerðar – og mál þetta ber að nokkru leyti vitni um – er fákeppnin ekki orðin slík að unnt sé að bera á borð við málflutning fyrir dómstólum landsins að vart sé nokkrum öðrum útgerðaraðilum til að dreifa í Vestmannaeyjabæ sem keypt gætu skipin,“ segir m.a. í niðurstöðu héraðsdóms.
Fram kemur í dóminum, að með fréttatilkynningu þann 30. ágúst 2012 hafi Síldarvinnslan hf. greint frá því að félagið hefði „undirritað kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Bergur-Huginn ehf.“ í Vestmannaeyjum. Fram hafi komið í tilkynningunni að seljandi væri „hlutafélag í eigu Magnúsar Kristinssonar útgerðarmanns og fjölskyldu“. Um kaupverð hafi ekki annað komið fram en að það væri „trúnaðarmál milli kaupanda og seljanda“. Með kaupunum muni Síldarvinnslan hafa aukið aflaheimildir sínar í bolfiski umtalsvert og öðlast yfirráð yfir fjórum skipum til bolfiskveiða, en fyrir liggur að Bergur-Huginn hafi gert út tvo nýlega togara, Bergey VE-544 og Vestmannaey VE-444.
Fram kemur að Vestmannaeyjabær segist hafa strax í kjölfar þess að tilkynnt hafi verið um söluna, hafa hafist handa við að tryggja að bæjarfélaginu yrði boðið að ganga inn í kaupin í samræmi við 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Því höfnuðu félögin.
Vestmannaeyjabær höfðaði því mál og byggði málatilbúnað sinn á því að sveitarfélagið eigi rétt á að ganga inn í kaupsamning milli stefndu um sölu á öllum eignarhlutum í Bergi-Hugin til Síldarvinnslunnar á grundvelli forkaupsréttar sveitarfélags að fiskiskipum samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, að ágreiningur aðila snýst fyrst og síðast um ákvæði 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, nánar tiltekið hvort ákvæðið nái til þeirra atvika sem hér liggja til grundvallar og þá hvernig skýra beri orðalag ákvæðisins, sem er svo hljóðandi:
„Eigi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu. Forkaupsréttur skal boðinn skriflega þeirri sveitarstjórn sem hlut á að máli og söluverð og aðrir skilmálar tilgreindir á tæmandi hátt. Sveitarstjórn skal svara forkaupsréttartilboði skriflega innan fjögurra vikna frá því henni berst tilboð og fellur forkaupsréttur niður í það sinn sé tilboði ekki svarað innan þess frests.“
Auk þessa varðar deila málsaðila ákvæði 4. mgr. og 5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006, sem hljóða svo:
„Neyti sveitarstjórn forkaupsréttar skv. 3. mgr. þessarar greinar skal hún þegar gefa útgerðaraðilum, sem heimilisfesti eiga í sveitarfélaginu, kost á að kaupa skipið og skal opinberlega leita tilboða í það.
Sé skipi ráðstafað andstætt ákvæðum þessarar greinar um forkaupsrétt getur forkaupsréttarhafi krafist þess að salan verði ógild enda sé málsókn hafin innan sex mánaða frá því að hann fékk vitneskju um söluna. Forkaupsréttur gildir ekki sé skip selt á opinberu uppboði. Ákvæði þessarar greinar um forkaupsrétt gilda ekki við sölu opinna báta.“
Það er niðurstaða héraðsdóms að taka til greina kröfu Vestmannaeyjabæjar um ógildingu samningsins. Þá er Q44 og Síldarvinnslunni gert að greiða Vestmannaeyjabæ þrjár milljónir króna í málskostnað.