Fjöldi fólks fór á Facebook-síðu Sambíóanna í Álfabakka um helgina og lýsti þar stuðningi sínum við tvær stúlkur sem var sagt upp í kjölfar jafnréttisumræðu á netinu. Sambíóin hafa nú lokað fyrir frekari athugasemdir á Facebook, og eytt öllum ummælum fólks.
Stjórnendur Sambíóanna hafa ekkert tjáð sig um mál tveggja fyrrverandi starfsmanna, ungra kvenna, sem sagt var upp í síðustu viku. mbl.is sagði frá málinu á föstudag og skapaðist mikil umræða um það í netheimum um helgina.
Í kjölfarið gripu sumir til stafrænna aðgerða og lögðu leið sína á Facebook síðu Sambíóanna í Álfabakka. Þar var, líkt og gjarnan á fyrirtækjasíðum, boðið upp á þann möguleika að gefa bíóinu stjörnur og skrifa umsögn um reynslu sína.
Eftir að neikvæðar umsagnir og einnar stjörnu dómar viðskiptavina hrúguðust inn á síðuna um helgina hafa Sambíóin nú gripið til þess að loka fyrir að viðskiptavinir þeirra geti tjáð sig með þessum hætti á Facebook.
Ummælunum sem þar birtust um helgina hefur öllum verið eytt, en þar á meðal voru sumir sem kröfðust skýringa á uppsögnum stúlknanna og aðrir sem lýstu því yfir að þeir hygðust ekki eiga frekari viðskipti við bíóið. Þess í stað hafa sumir fært sig yfir á vefinn Stjornur.is til að tjá óánægju sína.
Fyrirspurnum mbl.is til Alfreðs ÁsberG Árnasonar framkvæmdastjóra Sambíóanna hefur ekki verið svarað.
Sjá fyrri frétt mbl.is: Sagt upp eftir jafnréttisumræðu