Suðurnesjalína 2 komin á áætlun

 Eina tenging Reykjaness við meginflutningskerfi Landsnets er um Suðurnesjalínu 1 sem er 132 kV. Þörf er á annarri tengingu fyrir Suðurnesin óháð sérstökum áformum um atvinnuuppbyggingu og hefur því verið ákveðið að ráðast í byggingu Suðurnesjalínu 2.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Landsnets sem kynnt var í dag. Er þetta í fyrsta sinn þriggja ára framkvæmdaáætlun sem greinir frá öllum verkefnum sem Landsnet mun ráðast í til og með árinu 2016 er gefin út.

Í skýrslunni kemur fram að marga jarðhitakosti á Suðurnesjum verður ekki unnt að nýta án þeirrar flutningsgetu sem 220 kV lína færir ásamt því að N-1 afhendingaröryggi er ekki fullnægt. „Því er það niðurstaðan eftir mikla skoðun að hagkvæmasta lausnin til framtíðar sé loftlína á þessu spennustigi. Umhverfismati og skipulagsmálum vegna línunnar er lokið auk þess að leyfis Orkustofnunar hefur verið aflað,“ segir í skýrslunni.

Sigöldulína 3 sem tengir Sigölduvirkjun við Búrfellsvirkjun er 220 kV loftlína sem hefur reynst flutningstakmarkandi í vissum truflanatilvikum í gegnum tíðina. Ákveðið hefur verið að ráðast í umfangsmiklar styrkingar á þessari línu með útskiptingu leiðara á nokkrum köflum og er þá með tiltölulega lágum tilkostnaði hægt að auka flutningsgetuna á 220 kV milli Sigöldu og Búrfells umtalsvert án þess að reisa nýja línu.

Landsvirkjun undirbýr nú virkjun á Þeistareykjum og hefur óskað eftir því að Landsnet tengi virkjunina  við flutningskerfið. Gert er ráð fyrir að nýtt tengivirki rísi við Þeistareykjavirkjun og lögð verði ný  loftlína frá Þeistareykjum að Kröflu þar sem tenging virkjunarinnar við flutningskerfið verður.

Kerfisáætlun Landsnets

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert