Óásættanlegt er að verjendur komist upp með að gefa dómstólum langt nef með því að mæta ekki til þingshalds. Þetta sagði ríkissaksóknari þegar áfrýjun verjenda í Al Thani-málinu á réttafarssekt sem þeir voru dæmdir til að greiða var tekin fyrir í Hæstarétti í morgun.
Ragnar Hall og Gestur Jónsson voru verjendur sakborninga í Al Thani-málinu svonefnda. Þeir sögðu sig frá því í apríl í fyrra, að því að þeir sögðu til þess að vekja athygli á brestum við meðferð málsins eftir að þeim hafði verið neitað um frest og frekari gögn um málið. Aðalmeðferð málsins tafðist fram í nóvember eftir að þeir sögðu sig frá því. Þegar dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur voru þeir Ragnar og Gestur dæmdir til að greiða milljón krónur hvor um sig í réttarfarssekt fyrir að misbjóða virðingu dómsins. Þeir áfrýjuðu báðir.
Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, sagði í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti að dómstólar hafi síðasta orðið og réttakerfið byggi á að málsaðilar fari eftir því en taki ekki lögin í eigin hendur. Lögmenn hafi ekki aðeins skyldum að gegna gagnvart skjólstæðingum sínum heldur réttarkerfinu í heild sinni. Réttarríkið væri ekki fyrir mikið ef ekki er farið eftir lögum og reglum. Aðgerð varnaraðila hafi verið löglaus.
Samkvæmt lögum hafi verjendur ekki rétt til að óska eftir lausn frá sakamálum, hvað þá að segja af sér. Það sé réttur sakborninga. Í þessu máli breyti engu að skjólstæðingar verjendanna hafi veitt samþykki sitt fyrir því að þeir segðu sig frá málinu.
Þá gaf ríkissaksóknari lítið fyrir þær ástæður sem þeir Ragnar og Gestur gáfu fyrir að segja sig frá málinu. Það skyti skökku við að segja sig frá því með þeim orðum að skjólstæðingur þeirra hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð. Ætla mætti að ef brotið hafi verið á sakborningunum hafi þeir einmitt haft þörf fyrir reynslumikla verjendur eins og þá Ragnar og Gest sem höfðu þar að auki yfirgripsmikla þekkingu á málinu eftir að hafa unnið við það frá upphafi rannsóknar árið 2009. Hag skjólstæðinga þeirra hefði væntanlega verið best borgið með því að þeir héldu áfram að sinna verjendastörfum í málinu.
„Það er með öllu óásættanlegt og andstætt lögum um meðferð sakamála ef verjendur gætu komist upp með það að gefa dómstólum langt nef og mæta ekki þegar er búið að ákveða þinghald því að þeim finnst að það eigi að vera á öðrum tíma þegar dómari er búinn að taka af skarið. Það væri óásættanleg og afleit niðurstaða,“ sagði Sigríður.